Verkefnum TF-SIF,  flugvélar Landhelgisgæslunnar,  árið 2011 er nú lokið fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Flugvélin er nú á heimleið frá Ítalíu og er gert ráð fyrir að hún lendi á Reykjavíkurflugvelli í dag.

TF-SIF hefur síðastliðna tvo mánuði gert út frá Brindisi og verið við eftirlit á Miðjarðarhafi og Eyjahafi. Á tímabilinu hefur áhöfn flugvélarinnar fundið báta og fleytur með alls 267 flóttamönnum sem síðan var komið til bjargar og aðstoðar með varðskipum og björgunarbátum á svæðinu.

Landhelgisgæslan tók á árinu þátt í verkefnum Frontex með varðskipinu Ægi samfleytt frá júní-október en flugvélinni TF-SIF með hléum frá sama tíma. Varðskipið Ægir tók þátt í fjöldamörgum björgunaraðgerðum þar sem samtals 495 flóttamönnum var bjargað um borð og fluttir til hafnar með varðskipinu Ægi eða öðrum björgunarskipum á svæðinu, þar af voru 272 í alvarlegum lífsháska.

Sjá nánar á vef LHG