„Verkefnastaðan er mjög góð núna og líka í framhaldinu, vel fram á haustið,“ segir Ólafur Jón Ormsson, framkvæmdastjóri Vélsmiðju Orms & Víglundar sem er bæði með flotkví í Hafnarfirði og Slippinn í Reykjavík.

„Við erum víða, bæði í skipum og upp á landi og erum þar að vinna í virkjunum og líka upp á Keflavíkurflugvelli,“ nefnir Ólafur sem dæmi um viðfangsefnin.

Ólafur segir verkefnasviðið hafa breikkað verulega eftir að Stálsmiðjan Framtak rann í Vélsmiðju Orms & Víglundar þann 1. maí síðastliðinn.

Unnið í níu skipum

„Þá varð til mjög öflugt og gott fyrirtæki. Við erum með 120 starfsmenn og verkefnin eru eftir því. Þau eru fleiri, fjölbreyttari og skemmtilegri. Þetta er bara jákvætt,“ segir Ólafur.

Ýmislegt getur komið upp á annasömum degi í slippnum. FF Mynd/Eva Björk
Ýmislegt getur komið upp á annasömum degi í slippnum. FF Mynd/Eva Björk

Varðandi slippamálin kveður Ólafur stöðuna þar mjög sterka sem fyrr segir.  „Ætli við séum ekki að vinna í níu skipum núna,“ segir hann. Aðspurður segir hann að ekki sé einhver mjög stór, stök verkefni fram undan.

„Þetta eru hefðbundin viðhaldsverkefni. Auðvitað eru þau misjöfn að stærð en þetta eru ekki svona stærri breytingar. Við erum ekki í því núna. Við höfum verið með nokkur undanfarin ár en það er ekki núna,“ segir Ólafur.

Gott viðhald á flotanum

Spurður hvort íslenska skipaflotanum sé vel viðhaldið segir Ólafur að svo sé. „Útgerðirnar hugsa vel um skipin sín,“ segir hann. Enda borgi það sig.

„Ef þeir nýta viðhaldsstoppin betur eru þeir að koma í veg fyrir að þurfa að taka óskipulögð stopp sem fækkar fyrir vikið – þó svo þau geti alltaf komið upp. Það er að minnsta kosti komið í veg fyrir hluta af þeim með fyrirbyggjandi viðhaldi,“ segir Ólafur.

Flotkvíin stóra í Hafnarfirði getur tekið upp mun stærri skip en hægt er að sinna í slippnum í Reykjavík en Ólafur segir skipunum þó raðað eftir hentugleikum á þau upptökumannvirki sem fyrirtækið ráði yfir.

„Ef það hentar betur þá færum við verkefni úr Reykjavík í Hafnarfjörð og öfugt. Þannig getum við nýtt upptökumannvirkin sem best.“