„Það verður fróðlegt að sjá hvort matvælaráðherra ætli að halda áfram að ástunda ógeðfelld stjórnsýsluvinnubrögð og heimila ekki veiðarnar 1. september eins og ráðherrann hefur nú þegar gefið í skyn að hún ætli sér að gera,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness í Facbookfærslu um hvalveiðimálið.
„Ég verð að lýsa yfir ánægju með að Hvalur hafi boðið starfsmönnum vinnu í sumar en að sjálfsögðu er Hvalur að tryggja að fyrirtækið hafi mannskap þegar svokallaða „tímabundna“ hvalveiðibann rennur út sem er 1. september. Enda blasir við að Hvalur mun fara á veiðar 1. september og reyna að lágmarka það gríðarlega fjárhagstjón sem matvælaráðherra hefur valdið starfsmönnum og fyrirtækinu,“ segir Vilhjálmur ennfremur.
Formaðurinn bendir á að sú vinna sem sé í boði hjá Hval sé einungis dagvinna. „Nema þær launatekjur einungis brot af þeim tekjum ef þetta ólöglega tímabundna hvalveiðibann hefði ekki komið til,“ segir áfram í færslunni.
„Það er alveg ljóst að Hvalur er að undirbúa margra milljarða skaðabótakröfu á hendur ríkinu. Það er bara spurning hversu há hún verður, en það mun væntanlega ráðast á því hvort veiðarnar verða heimilaðar 1. september eða ekki,“ segir Vilhjálmur sem kveður ríkisstjórnina hljóta að springa verði hvalveiðibannið framlengt.
Rætt er við Vilhjálm um þetta mál í næsta tölublaði Fiskifrétta.