Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir til skoðunar að krefja Hval hf, um bætur vegna tekjustaps sem starfsmenn verði fyrir með því að ekki verði af veiðum á langreyði í sumar eftir að matvælaráðherra bannaði veiðarnar.

„Við erum núna að undirbúa að stefna þessu máli fyrir Félagsdóm til að reyna að kanna réttindi okkar félagsmanna gagnvart þessari ákvörðun,“ segir Vilhjálmur. Ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort stefnan muni beinast að Hvali hf. eða ríkinu.

„Það er hugsanlegt að við þyrftum að beina þessu að Hvali vegna þess að ráðningin er í gegn um Hval. Ef við vinnum málið þar þá liggur alveg fyrir að Hvalur er kominn með mál í hendurnar gagnvart ríkinu vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir vegna þess,“ segir Vilhjálmur.

Einföld krafa um bætur

Spurður hver krafan á hendur Hvali yrði segir Vilhjálmur það vera einfalt í sínum huga. „Við erum bara með meðaltal frá vertíðinni í fyrra, hver laun starfsmanna voru ásamt þeim samningsbundnu hækkunum sem hafa verið,“ svarar hann.

„Ef við ættum ekki rétt á hendur Hvali þá skapast að mínum dómi tækifæri fyrir okkur til að fara með kröfur á hendur ríkinu,“ heldur Vilhjálmur áfram og undirstrikar að það sé helsta hlutverk stéttarfélaga að gæta hagsmuna sinna félagsmanna í hvívetna.

„Við verðum bara að fara eftir þeirri lögfræðilegu ráðgjöf sem við munum fá frá okkar lögmönnum. Ef okkur verður ekki ágengt gagnvart dómstólum að Hvalur sé skuldbundinn til að greiða þetta þá munum við eðli málsins samkvæmt láta á það reyna gagnvart ríkinu,“ útskýrir formaðurinn.

Ráðherra kveðst byggja á lögum

„Við erum líka að gæta að atvinnuöryggi okkar félagsmanna með því að mótmæla þessari gerræðislegu pólitísku ákvörðun matvælaráðherra sem virðist ekki byggð á neinni fagmennsku nema síður sé. Og ekki heldur út frá almennri skynsemi varðandi lögfræði,“ segir Vilhjálmur.

Fram hefur komið að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hefur sagst hafa byggt ákvörðun sína á faglegu mati sem sýni að veiðar Hvals hf. á langreyðum uppfylli ekki kröfur laga um dýravernd. Ekki sé hægt að leyfa slíkar veiðar.

Vilhjálmur segir um að ræða pólitískt mál og kallar eftir útspili frá samstarfsflokkum flokks matvælaráðherrans.

Spyr um samstarfsflokkana

„Hvar eru sjálfstæðismenn og hvar eru framsóknarmenn í þessu máli? Það er stóra spurningin í mínum huga. Ég botna ekki í svona löguðu, sérstaklega vegna þess að það er æði margt sem bendir til þess að þessi ákvörðun matvælaráðherra standist ekki lög. Ég spyr mig hvert pólitíkin sé komin þegar að við erum komin á þann stað að þetta muni jafnvel baka ríkinu skaðabótaskyldu og menn vita af því og ætla ekkert að gera með það,“ segir Vilhjálmur.

Að sögn Vilhjálms sendi Verkalýðsfélag Akraness matvælaráðherra bréf og gaf frest sem rann út fyrir viku til að svara því hvernig komið yrði til móts við gríðalegt tekjutap sem félagsmenn væru að verða fyrir.

„Þessu ágæta fólki sem kennir sig við íslenskt verkafólk hefur ekki einu sinni séð sóma sinn í því að svara stéttarfélaginu,“ segir Vilhjálmur.

Þá segir Vihjálmur að Umboðsmanni Alþingis hafi einnig verið sent bréf vegna málsins.