Sjávarútvegsfyrirtæki um allan heim hafa fylgst grannt með þróun og prófunum á UNO fiskvinnsluvélinni. Beinagarðskurður í UNO byggir á áður óþekktri og einstakri tækni þar sem skorið er fyrir beinagarðinum í heilan, óflakaðan bolfisk um leið og fiskurinn er jafnframt flakaður og í framhaldinu roðdreginn. Prófanir hafa komið vel út, sýnt bæði aukna nýtingu og flakagæði. Vélfag fagnar 30 ára afmæli á árinu og býr sig jafnframt undir bylgju afhendinga á UNO. Þar með talið vélum sem verða afhentar með næstu vinnslufösum í UNO; hausun með nýrri tækni og frekari fullvinnslu á afurðunum. Fiskifréttir ræddu við Bjarma Sigurgarðarsson, sem stofnaði Vélfag ásamt eiginkonu sinni, Ólöfu Ýri Lárusdóttur árið 1995.

Bjarmi lærði bílasmíði á yngri árum bæði í Iðnskólanum og síðar keppnisbílasmíði hjá Malcolm Wilson í Bretlandi. Hann vann að því loknu nokkur ár við smíði á torfæru- og rallybílum sem reyndust sigursælir keppnisbílar en hann var einnig meðal fremstu keppnismanna á Íslandi í þessum greinum. Bjarmi þekkti marga sem unnu í viðhaldsþjónustu hjá Baader á þessum tíma og fannst þetta mjög óspennandi geiri með fráhrindandi og fornfálegum vélbúnaði.

„Eitt er víst að ég ætlaði aldrei út á þessa braut. Ég sá fyrir mér starfsframa tengdan bíla bransanum.“ Bjarma stóð til boða að hefja keppnisferil erlendis þegar slys á auga batt enda á feril hans sem keppnisökumanns. Eins og annað ungt fólk sem stofnar fjölskyldu þurfti hann að vinna fyrir salti í grautinn. Árið 1989 réði Bjarmi sig sem baadermann til sjós á Mánabergi ÓF, skipi Ramma hf. Hann áttaði sig fljótlega á að með sömu nálgun og hann hafði viðhaft í keppnisbílageiranum gat ýmislegt farið betur í fiskvinnsluvélunum. Hann fann leiðir til að bæta vélarnar svo ekki yrðu langar frátafir frá veiðum og vinnslu um borð í skipunum. Aftur urðu augnmeiðsli örlagavaldur hjá Bjarma sem fór þess vegna í land fyrr en til stóð. Hann stofnaði viðgerðaþjónustu í Ólafsfirði sem rekin var á hans eigin kennitölu árið 1994 og hélt þar áfram að sinna svipuðum hlutum fyrir Ramma og aðra útgerðaraðila. Þessi vending varð upphafið að einu framsæknasta hátæknifyrirtæki heims á sviði fiskvinnsluvéla, Vélfagi ehf.

Sama verkaskipting í 30 ár

Bjarmi og Ólöf Ýr stofnuðu Vélfag ehf. árið 1995 og hefur það verið rekið óslitið á sömu kennitölu allar götur síðan. „Þröskuldurinn inn í geirann var hár en með tilkomu frystiskipa hafði myndast tómarúm á erfiðustu hillunni þar sem kröfurnar voru miklar; að leysa áskoranir sem fylgdu flakavinnslu til sjós. Við stukkum á þá hillu.“ Tæknilegar lausnir og þekking á stálsmíði og vélum var styrkur og innsæi Bjarma sem dreif áfram þróun, þjónustu, sölu og framleiðslu en Ólöf Ýr sá um fjármál, bókhald, samninga, útflutning og annan rekstur og utanumhald. Þannig var verkaskiptingin í nánast 30 ár. Verkefnin og umsvifin uxu þó hröðum skrefum og tóku breytingum ár frá ári og starfsfólkinu fjölgaði með árunum. Hópurinn var þéttur og samstilltur og starfsmannavelta sáralítil. „Ég byrjaði í raun að hanna flökunarvél 1998 eða 1999, talsvert mörgum árum áður en fyrsta framleidda prótótýpan fór til prufu í vinnslu Norðurstrandar á Dalvík árið 2007,“ segir Bjarmi. „Við fluttum inn ryðfríar boddíplötur sem ég hafði látið vatnsskera í Noregi áður en sú tækni kom til Íslands. Stálið var 12 mm þykkt og menn komu langar leiðir að til þess að skoða plöturnar því fæstir höfðu heyrt af því að hægt væri að skera svo þykkt stál með vatni. Niðurstaðan varð fyrsta bolflökunarvélin í heiminum úr ryðfríu stáli. Hún hlaut nafnið Marín 700 (M700), vélin sem lagði grunninn að Vélfagi og því sem það er í dag,“ segir Bjarmi.

Lykillinn að UNO-vélinni

„Að baki UNO vélinni stendur gífurleg reynsla sem við höfum innanborðs í Vélfagi í starfsfólki okkar og samstarfsfólki sem unnið hefur við fiskvinnslu og þjónustu bæði til sjós og lands og gjörþekkir viðfangsefnin og hráefnið sem unnið er með. Þekkingin og starfsfreynslan er samanlagt talin í árhundruðum. Frá þessum kjarna í samvinnu við öflugt starfsfólk í framleiðslu, sölu og markaðsstarfi Vélfags hefur UNO byltingin sprottið, sú sem blásið er til með markaðssetningu á fyrsta fasa UNO,“ segir Bjarmi. Til gamans má geta þess að Silfá Huld, dóttir þeirra Bjarma og Ólafar, lagði til nafnið á UNO vélinni.

Tæknin er einkaleyfisvarin og snýst eins og áður segir um þá áður óþekktu aðferð að skera beingarðinn úr heilum bolfiski, þ.e.a.s. samhliða því að fiskurinn er flakaður og roðflettur. Prófanir á UNO tækninni hafa sannreynt beinaskurðarvirknina og að tæknin bæti jafnframt nýtingu og flakagæði. UNO getur þannig leyst af hólmi plássfrekar vatnsskurðarvélar til að skera beinagarða úr flökum. Auk þess skilar UNO nýrri afurð að vali; beinlausum flökum með roði. UNO tekur margfalt minna pláss í fiskvinnslunni en hingað til hefur þurft til að skila vinnslu á sömu afurðum með hefðbundnum fiskvinnslulínum og vatnsskurðarvélum. UNO er einnig mannaflssparandi og opnar möguleika á meiri fullvinnslu þar sem skortur á vinnuafli hefur áður staðið í veginum, t.d. í dreifðari byggðum.

Sigurgarðar og Ólöf Ýr við UNO-fiskvinnsluvél. Mynd/Axel Þórhallsson
Sigurgarðar og Ólöf Ýr við UNO-fiskvinnsluvél. Mynd/Axel Þórhallsson

Við það að gefast upp

Sagan hefur þó ekki alltaf verið dans á rósum. Upp úr 2004 var þróun á eigin flökunarvél langt komin. Fjármögnun var erfið á þessum tímum og þegar á leið voru þau hjón alveg við það að gefast upp. Bjarmi minnist þess að hafa hugsað hve hart væri að þau væru búin að leggja allt þetta á sig án þess að eitthvað stæði eftir, „Við yrðum að ná að gera eina helvítis vél og hætta svo.“

Málin snerust til betri vegar 28. júní 2007 þegar Vélfag undirritaði samning við Ramma hf. um smíði á fjórum flökunarvélum og átta hausurum í nýsmíði togarann Sólberg ÓF. „Ef við hefðum ekki fengið þetta verk þá hefðum við hætt og Vélfag aldrei orðið það sem það er í dag.“ Vélarnar fóru þó á endanum annað því skipasmíðastöðin í Noregi varð gjaldþrota en Vélfag hafði gert beinan samning við Ramma sem stóð við sinn samning. Ein þessara M700 flökunarvéla varð engu að síður fyrsta vélin sem fór um borð í skip. Sagað var gat á síðuna á Mánaberginu, B189 tekin úr en M700 sett í skipið. Þessi sama M700 vél er eina tækið sem síðar var tekið úr gamla Mánaberginu þegar það var selt, og jafnframt eina notaða tækið sem sett var í nýsmíðina Sólberg ÓF. Bjarmi segir að frá og með árinu 2017 til loka árs 2024 hafi verðmæti upp á tæpa 90 milljarða kr. farið í egnum vélina þegar hún var í Mánabergi og nú í Sólbergi. Þessi saga sýnir hve mikilvægt er að til staðar séu öflug og sterk sjávarútvegsfyrirtæki með kjark og þor til að fjárfesta í nýrri íslenskri tækni. Aðrar útgerðir komu sterkar í kjölfarið með véla-, þjónustu og varahlutakaupum; HB Grandi, Þorbjörn, Fisk-Seafood, Gjögur, Síldarvinnslan, Ögurvík, ÚA og Brim. Samherji lagði m.a. grunninn að erlendri sókn Vélfags og svo má lengi áfram telja.

Bluewild og Brim riðu á vaðið

Þótt UNO vélin hafi verið í hugarfylgsnum Bjarma alveg frá 2008 ýjaði hann fyrst að til komu hennar í viðtali í tímariti Fiskifrétta í nóvember 2021. Prófanir voru þá í gangi hjá Gjögri á Grenivík, niðurstöður lofuðu strax mjög góðu og í framhaldinu voru sjóprufur á beinaskurðaraðferðinni um borð í Sólbergi ÓF. Góð dæmi um ómetanlegt þróunarsamstarf milli íslenskra útgerða og tæknifyrirtækja sem drífur áfram nýsköpun. Norska útgerðin Bluewild keypti fyrstu tvær UNO vélarnar fyrir hinn byltingarkennda togara ECOFIVE. Fiskvinnslan Kambur ehf. var fyrsta íslenska fiskvinnslufyrirtækið sem tók UNO fiskvinnsluvélina í notkun. Í nóvember sl. sagði Hólmar Hinriksson, rekstrar- og framleiðslustjóri, að reynsla fyrstu tvo mánuðina væri afar góð. Brim hf., eigandi Kambs, stóð fyrir fyrstu kaupum á UNO-vélinni á Íslandi og tryggði sér auk þess forkaupsrétt á fimm öðrum UNO vélum.

Búa sig undir bylgju pantana

Bjarmi bendir á að vegna efnahagsumhverfisins hér og víða um heim hafi þó verið talsverð fjárfestingarfælni meðal sjávarútvegsfyrirtækja undanfarin misseri. Nú rofi til og Vélfag undirbýr stórsókn á markaði. Fjárfest var í framleiðslutækjum og fyrirtækið flutti í umtalsvert stærra húsnæði 2024. Nýlega voru tvær UNO vélar seldar til sjávarútvegsfyrirtækis í Noregi sem verða fyrstu tvær vélarnar af fjórum UNO vélum sem það fyrirtæki mun kaupa. „Menn hafa bara verið að bíða eftir því að fá staðfestingu á því að þessi tækni virki sem við kynntum með UNO. Við höfum sýnt fram á að hún virkar svo sannarlega og vel það. Markaðir eru að taka við sér og við hjá Vélfagi verið önnum kafin að gíra upp framleiðslu og þjónustu af fullum krafti til að mæta eftirspurninni.“