Verið er að mála og gera ýmsar lagfæringar á varðskipinu Freyju hjá GMC í Stafangri í Noregi. Eins og mönnum er í minni var skipið afhent með gallaðri málningarvinnu og þótti lýti að sjá þetta gerðarlega skip vera orðið skellótt á stefninu strax við komuna til Reykjavíkur 8. nóvember á síðasta ári.
Það var ekkert verið að bíða boðanna heldur hélt Freyja strax í sína fyrstu eftirlitsferð um Íslandsmið þann 22. nóvember. Að henni lokinni hélt hún til Siglufjarðar sem er heimahöfn varðskipsins.
Auðunn F. Kristinsson, verkefnisstjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, segir að áætlað sé að Freyju verði siglt áleiðis til Íslands 13. september og hún verði komin heim upp úr miðjum mánuði.
„Auk þess að mála skipið fer fram minniháttar viðhald eins og þrif á loftræstistokkum og annað snurfus. Stóra málið er málningarvinnan.“
Skrokkur Freyju er fullmálaður núna en enn er unnið á dekkinu við ýmsan frágang.
„Það var mikið lagt upp úr því að þrífa af henni alla eldri málningu og vanda vel til verka við málningarvinnuna. Hún var einfaldlega illa máluð af seljandanum og undirbúningur fyrir málun slakur. Freyja kemur í sínum bestu klæðum hingað til lands upp úr miðjum mánuði,“ segir Auðunn.
Reynst frábærlega
Auðunn segir að Freyja hafi reynst alveg frábærlega sem varðskip þann tíma sem hún hefur verið í flota Landhelgisgæslunnar. Hún sé gott sjóskip og vel tækjum búin. Þótt hún sé upphaflega hönnuð sem þjónustuskip við olíuiðnaðinn uppfyllir hún allar þarfir Landhelgisgæslunnar fyrir varðskip.
Með komu Freyju á ný til landsins verða til taks tvö öflug varðskip sem eru sérútbúin til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland. Dráttargeta Freyju er til að mynda tæplega tvöfalt meiri en dráttargeta varðskipsins Þórs eða rúm 200 tonn. Einnig eru færanlegir kranar á afturþilfari skipsins sem gera björgunarstörf og aðra vinnu áhafnarinnar auðveldari. Þá er einn öflugur stór krani fremst á afturþilfari. Skipið er mjög vel búið dráttarspilum svo taka má stór og öflug skip í tog.
Freyja var smíðuð í Suður-Kóreu árið 2010 og hefði verið nýtt sem þjónustuskip fyrir olíuiðnaðinn. Kaupverðið nam rúmum 1,9 milljörðum króna.