Maðkað mjöl fær kannski nýja merkingu í framtíðinni. Ekki verður lengur um gallaða vöru að ræða heldur hágæðaprótín sem notað verður sem hráefni í fóður fyrir ört vaxandi fiskeldi í heiminum. Í Suður-Afríku fer nú fram tilraunaræktun á möðkum sem nota á í þessu skyni. Binda menn miklar vonir við að fóðurframleiðendur þurfi ekki eingöngu að treysta á framboð af fiskimjöli, að því er fram kemur í frétt á Seafood Source.
Tilraunavinnslan er enn í smáum stíl en á næsta ári verður hún stækkuð á næsta ári þannig að milljónum lirfa verður þá breytt í hálft tonn af prótínríku mjöli eða dufti dag hvern. Þessi framleiðsla er liður í viðleitni umhverfissinnaðra frumkvöðla að breyta lífrænum úrgangi í gæðaprótín til framleiðslu á dýrafóðri.
Vitnað er í upplýsingar frá Sea Fish Industry Authority (SFIA) í Bretlandi þar sem fram kemur að um 300 fiskimjölsverksmiðjur séu starfandi í heiminum. Heimsframleiðslan sé í kringum 5 milljónir tonna af fiskimjöli og um ein milljón tonn af lýsi á ári. Í þessa framleiðslu þurfi um 20 milljónir tonna af fiski og afskurði. Hlutfall fiskimjöls í fóðri sé breytilegt og sé 1 til 5% í húsdýrafóðri en í fóðri fyrir eldislax séu 20 til 30% af mjöli og um 15 til 20% af lýsi. Talsmenn maðkamjölsins benda á að fiskimjöl geti ekki annað eftirspurn frá vaxandi fiskeldi í framtíðinni.
Hugmyndin er sú að nota sláturúrgang til að ala flugur og maðka á. Sláturhús þurfa að leggja í mikinn kostnað til að losna við þennan úrgang. Menn telja sig því geta slegið “tvær flugur” í einu höggi; láta flugur éta það sem til fellur frá sláturhúsinu og ná þar að auki fram virðisauka í maðkavinnslunni. Hugmyndin er að staðsetja maðkavinnsluna nálægt sláturhúsum. Þess er jafnframt getið í fréttinni að í miðríkjum Bandaríkjanna, þar sem er gríðarlega mikil kjötframleiðsla, mætti koma upp verksmiðju sem framleiddi um 20 tonn af maðkamjöli á dag.
Hver húsfluga getur verpt um 750 eggjum á sínu stutta lífsskeiði. Eggjunum er klakið út og maðkurinn ræktaður fram að púpustigi. Hann er síðan hitaður og gert úr honum duft. Til að framleiða eitt tonn af dufti þarf, fimm tonn af möðkum eða um 200 milljón stykki.