Grænn iðngarður á Reykjanesi verður reistur að nokkru á hugmyndafræði Sjávarklasans sem Þór Sigfússon hratt af stað í Reykjavík fyrir rúmum áratug. Þór segir starfsemina þó verða miklu víðtækari en svo að hún einskorðist við sjávarútveginn sérstaklega.
„Menn hafa í gegnum tíðina verið að koma til okkar með ólíkar pælingar um tilraunir í eldi og fleira, og þessum fyrirtækjum hefur vantað húsnæði. Þeir hafa sagt að þeim vanti eitthvert lítið skrifstofuhúsnæði en fyrst og fremst vanti vinnsluhúsnæði eða tilraunahúsnæði, og þar með er draumur að verða að veruleika hjá okkur að geta núna boðið þessum fyrirtækjum og öðrum.“
Nýverið var gengið frá kaupum Reykjanesklasans ehf. á byggingum Norðuráls í Helguvík. Húsnæðið er um 25 þúsund fermetrar að grunnfleti og hefur staðið autt um árabil, en ætlunin er að húsnæðið verði um 35 þúsund fermetrar þegar umbreytingu þess er lokið.
„Heildarfjárfestingin í verkefninu er áætluð 4-5 milljarðar. Við erum með hóp fjárfesta með okkur í þessu verkefni,“ segir Þór. Viðræður séu þegar hafnar við mörg fyrirtæki og mikil fjölbreytni sé í starfsemi þeirra.
„Alþjóðlega munum við tala um að þetta verði 100 prósent hús. Eins og við tókum fiskinn Íslendingar og gerðum hann 100 prósent nýtilegan þá höfum við áhuga á því að hjálpa fyrirtækjum á öðrum sviðum að beita sömu aðferðafræði og sjávarútvegurinn hefur beitt við að ná 100 prósent nýtingu á hverju sem verið er að fást við, hvort sem það er ræktun eða eldi eða önnur framleiðsla.“
Húsnæðið býður upp á fjölbreytta möguleika og aðstöðu sem hægt að skipta upp í misstórar einingar sem henta hverju verkefni.
Ætlunin er að Græni iðngarðurinn og Auðlindagarðurinn á Reykjanesi muni efla samstarf sín í milli, en Auðlindagarðurinn nýtir nálægð við jarðvarmaver HS Orku.