Magn útfluttra sjávarafurða var tæpum 5% meira árið 2013 en árið 2012, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofu Íslands. Verðmæti útfluttra sjávarafurða var einnig örlítið meira eða um 1%. Á föstu verðlagi hefur útflutningsframleiðsla staðið í stað á milli árana 2012 og 2013. Mest var flutt út til Bretlands, eða um 9% af útflutningsverðmætinu.
Flutt voru út 785.683 tonn á síðasta ári í samanburði við 748.619 tonn á árinu 2012. Verðmæti útflutningsins nam 272.465 milljónum króna í samanburði við 268.631 milljón króna árið 2012.
Fluttar voru út sjávarafurðir fyrir 44.380 milljónir til Bretlands í fyrra, 19.253 milljónir til Noregs, 19.195 milljónir til Frakklands, 18.839 milljónir til Spánar og 18.600 milljónir til Rússlands. Þetta eru fimm helstu útflutningslöndin árið 2013.