Sjávarafurðir eru mikilvægasta útflutningsvara Alaska og skiluðu jafnvirði 296 milljörðum íslenskra króna á síðasta ári. Til samanburðar má nefna að fyrir útfluttar sjávarafurðir frá Íslandi í fyrra fengust 254 milljarðar króna.
Alls nam útflutningur frá Alaska 629 milljörðum ísl. króna og voru sjávarafurðir 47% af heildinni. Næst á eftir komu málmar sem skiluðu 35%.
Af einstökum löndum keypti Kína mest af útflutningsvörum frá Alaska eða 27% en næst á eftir kom Japan með 21% og Kórea með 12%. Asíulöndin hafa mestan áhuga á sjávarafurðum en í Evrópu er sterkur markaður fyrir verðmæta málma.
Alaska er fertugasta ríkið í röðinni þegar mæld eru útflutningsverðmæti einstakra ríkja Bandaríkjanna en hins vegar í 4. sæti þegar kemur að verðmætum á hvern íbúa enda fámennt ríki.