Kína verður fljótlega einn verðmætasti áfangastaður fyrir frosinn þorsk frá Noregi. Segir frá því á vef Viðskiptablaðsins að útflutningsverðmæti fisksins frá Noregi hafi aukist um 29 milljónir norskra króna, eða 370 milljónir króna milli ára. Það samsvari 155 prósent aukningu.
„Útflutningsmagn fisksins frá Noregi til Kína nam 814 tonnum í júlí, eða 77 prósent meira en í júlí 2023. Þá hafa rúmlega 10 þúsund tonn af þorski farið til Kína það sem af er ári,“ segir á vb.is þar sem vitnað er til viðtala Christian Chramer, framkvæmdastjóra Norska sjávarafurðaráðsins, við kínverska fjölmiðla. Hann segir að eftirspurn eftir norskum sjávarafurðum meðal kínverskra neytenda hafi aukist töluvert samhliða gengisfalli norsku krónunnar gagnvart evru og bandaríkjadal.
„Norðmenn slógu einnig met í júlí í útflutningi á síld og makríl en þjóðin flutti út meira en tíu þúsund tonn af síld að verðmæti 211 milljónir norskra króna. Það samsvarar 19 prósent aukningu í verðmæti þrátt fyrir lítils háttar samdrátt í magni,“ segir einnig á vb.is þar sem nánar má lesa um málið.