Útflutningsverðmæti eldisafurða á nýliðnu ári nam tæpum 54 milljörðum króna og hefur aldrei áður verið meira. Það er rúmlega 16% aukning frá árinu 2023, bæði á breytilegu og föstu gengi. Útflutningsverðmæti eldisafurða var rúmlega 15% af útflutningsverðmæti sjávarafurða og um 6% af verðmæti vöruútflutnings alls. Þau hlutföll hafa heldur aldrei verið hærri. Þetta má sjá í fyrstu bráðabirgðatölum Hagstofunnar um vöruskipti í desember sem birtar voru í vikunni. Í fyrstu bráðabirgðatölum er ekki birt sundurliðun á útflutningsverðmæti einstakra tegunda eldisafurða, en tölur þess efnis verða birtar í lok mánaðar.
Samhliða bráðabirgðatölum fyrir desember birti Hagstofan einnig ítarlegri tölur fyrir nóvember þar sem sjá má sundurliðun niður á tegundir fiskeldis í mánuðinum. Þar sést að útflutningsverðmæti eldislax var komið í rúma 40 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2024. Það er um 19% aukning frá sama tímabili árið 2023. Laxinn skilaði jafnframt næstmestu útflutningsverðmæti á fyrstu ellefu mánuðum ársins af öllum fisktegundum sem fluttar eru frá Íslandi, en þar er þorskurinn vitaskuld í fyrsta sæti. Útflutningsverðmæti af laxi voru 30% umfram verðmæti af ýsu sem var í þriðja sæti í þessari upptalningu. Laxinn er þar með í yfirburðastöðu í öðru sæti og miðað við framleiðsluhorfur má ætla að bilið breikki enn frekar á næstu árum. Nánar segir frá þessu á www.radarinn.is.