Í stað þess að vinna að því markmiði að auka tekjur og minnka kostnað sjávarútvegsins þá fela lög um veiðigjöld og frumvarp um stjórn fiskveiða í sér þveröfuga stefnu, minnka tekjur, auka kostnað, skapa óvissu og stuðla að skammtímahugsun. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn LÍÚ, SA og SF um frumvarp til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða sem nú liggur fyrir Alþingi.
Þar segir að lög um veiðigjöld og frumvarpið séu skref að því marki að ríkisvæða íslenskan sjávarútveg og byggir á þeirri hugmyndafræði að fjármunum sé betur komið í höndum stjórnmálamanna, en einstaklinga og fyrirtækja. Við blasi að fjölmörg fyrirtæki muni ekki ráða við þær grundvallarbreytingar sem verið sé að innleiða með tilheyrandi áhrifum fyrir starfsfólk, byggðarlög og samfélagið allt. Þau fyrirtæki sem lifi, verði veikari og verðmætasköpun íslensks sjávarútvegs dragist saman.
,,Þeir sem hafa áunnið sér aflaheimildir eða keypt þær á grundvelli núverandi laga hafa öðlast réttindi sem njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. greinar stjórnarskrárinnar. Þau réttindi verða ekki afnumin bótalaust. Það er mat samtakanna að verði frumvarpið að lögum skerði það atvinnuréttindi handhafa aflaheimilda samkvæmt 72. grein þannig að ríkið verði bótaskylt. Í þessu sambandi er vísað til meðfylgjandi álitsgerðar LEX lögmannsstofu.“