Michiganríki í Bandaríkjunum hefur boðið eina milljón dollara í verðlaun (114 milljónir ISK) til þeirra sem geta komið með snjalla lausn sem hindrar það að vatnakarpi frá Asíu hefji innreið sína í vötnin miklu. Þetta kemur fram á vefnum FishUpdate.

Vatnakarpi var fluttur inn til Bandaríkjanna í tengslum við fiskeldi en hefur sloppið í ár og vötn og dreifir nú úr sér og er víða plága. Hann er meðal annars kominn 10 mílur inn fyrir rafmagnsgirðingu sem reist var við Michiganvatn í þeim tilgangi að fæla fiskinn frá.

Um er að ræða tvær tegundir vatnakarpa og getur önnur þeirra náð allt að 50 kílóum að þyngd. Óttast er að vatnakarpinn ryðji úr vegi náttúrulegum fisktegundum, taki frá þeim æti og búsvæði og verði ríkjandi tegund í vötnunum. Mikið er í húfi því fiskiðnaðurinn við vötnin miklu veltir 7 milljörðum dollara á ári eða sem samsvara um 795 milljörðum íslenskra króna.

Óskað er eftir því að menn hvarvetna í heiminum sem hugsanlega hafi lausn á vandamálinu láti í sér heyra og freisti þess í leiðinni að vinna til verðlauna. Áhugasamir geta heimsótt heimasíðu Michiganríkis .