Ákveðnar blikur eru á loft á markaði fyrir fiskimjöl- og lýsi. Verð hefur lækkað og jafnvel má búast við frekari lækkunum með auknu framboði, að því er Jens Garðar Helgason, framkvæmdastjóri Fiskimiða og formaður SFS, sagði í samtali við Fiskifréttir er hann var spurður um markaðshorfur fyrir mjöl nú í upphafi loðnuvertíðar.
Jens nefndi sem dæmi að verð á hágæðamjöli hefði verið 15.500 krónur norskar fyrir tonnið síðastliðið sumar en væri nú komið niður í 11.000 til 11.500 krónur tonnið.
Aukið framboð er nú af mjöli í heiminum sem stafar af því að nokkuð góð veiði var á ansjósu við Perú í haust og vetur. Þá er einnig búist við því að vel veiðist af ansjósunni á vorvertíðinni. Mikil aukning er nú í kolmunnaveiðum og flestar þjóðir hafa jafnframt ákveðið að veiða umfram ráðgjöf fiskifræðinga. Þá berast fréttir frá Danmörku um að horfur eru á aukningu í sandsílaveiðum. Þótt megnið af íslensku loðnunni verði unnið til manneldis fer eitthvað í vinnslu á fiskimjöli.
„Við búumst við auknu framboði á mjöli og lýsi þannig að við sjáum þar af leiðandi verðlækkun í kortunum,“ sagði Jens.
Sjá nánar umfjöllun í nýjustu Fiskifréttum.