„Það er orðin ansi ískyggileg þróun þegar annar hver sporður sem keyptur er á fiskmörkuðum fer óunninn frá landinu,“ segir Gunnar Örlygsson, framkvæmdastjóri fiskútflutningsfyrirtækisins IceMar og einn eigenda fiskvinnslunnar AG-Seafood.
„Suma daga erum við að sjá að yfir fimmtíu prósent af þeim fiski sem fer í gegnum RSF fer óunninn frá landinu,“ segir Gunnar sem kveðst hafa látið kanna gróflega fyrir sig hver þróunin hafi verið frá því í ársbyrjun 2023.
„Fiskmarkaðirnir seldu frá þessum tíma fram til loka apríl á þessu ári um 230 til 240 þúsund tonn af fiski. Um sjötíu þúsund tonn fóru óunnin frá landinu, það er tæplega þriðjungur. Þetta eru tölur sem eru komnar langt yfir það sem við þekkjum frá árunum á undan,“ segir Gunnar.
Verður bara svæsnara
Að sögn Gunnars tóku erlendir kaupendur fyrir nokkrum árum að koma meira inn íslenska fiskmarkaðinn.
„Á árinu 2018 byrjar áberandi þróun í því að erlendir aðilar voru hreinlega komnir með kaupendanúmer á fiskmörkuðum. Þeir máttu það og það er ekkert að því,“ segir Gunnar.
Árið 2018 hafi verið seld um 45 þúsund þúsund af þorski á fiskmörkuðum. Þá hafi heildarútflutningur af óunnum þorski sem landað var á Íslandi verið á milli níu og tíu þúsund tonn.
Erlendir kaupendur komust á bragðið á fiskmörkuðunum
„Í fyrra hrapar magnið sem selt er í gegnum fiskmarkaði niður í rúm þrjátíu þúsund tonn,“ segir Gunnar. Að sama skapi hafi útflutningur á óunnum þorski, tvö- ef ekki þrefaldast frá 2018.
„Fleiri erlendir kaupendur komust á bragðið með það að hægt væri að kaupa beint á fiskmörkuðunum. Við í þessum sjálfstæðu fiskvinnslum eigum mjög erfitt með að keppa við þetta. Það á líka við um útgerðarfyrirtæki sem reiða sig á hráefni frá fiskmörkuðunum. Þessi fyrirtæki verði undir í samkeppninnisegir Gunnar. „Það helgast af því að við erum að borga hærri laun. Þetta mun aukast og verður bara svæsnara ef fram heldur sem horfir.“
Pólitísk ákvörðun óhjákvæmileg
Gunnar tekur skýrt fram að hann sé síður en svo að kasta rýrð á menn eða fyrirtæki sem séu að flytja út heilan fisk frá Íslandi enda fari þeir allir eftir lögum í þeim efnum.
„Ekki er ólíklegt að sum þessara félaga setji upp fiskvinnslu á Íslandi í stað þess að flytja heilan fisk út ef loku verður skotið fyrir þessa óheillaþróun. Yrði það ekki frábær þróun?“ spyr Gunnar.
„Það sem ég er að benda á er að það þarf að taka pólitíska ákvörðun um það hvort við ætlum að vera hráefnislandið Ísland eða matvælalandið Ísland. Við erum í þeirri stöðu núna að ákveða hvort við ætlum að setja álag, eins og var hér áður fyrr á útflutning á óunnum fiski, eða bara hreinlega vinnsluskyldu. Ég vil fá að vita hvor leiðin verður valin vegna þess að það mun hafa áhrif á það hvernig ég mun fjárfesta á næstu árum,“ segir Gunnar og ítrekar um sé að ræða ákvörðun sem sé óhjákvæmileg.
Milljarðar króna og hundruð starfa
„Það er vegna þess að þróunin er svo ískyggileg og hröð. Allir sem eru að kaupa á fiskmörkuðum sjá hversu mikið þetta hefur aukist á síðustu vikum og mánuðum,“ segir Gunnar. Hér sé til þess að líta að miðað við þann fisk sem nú sé fluttur út óunninn sé hægt að gera ráð fyrir verðmætaaukningu fyrir þjóðarbúið upp á 12 til 16 milljarða króna á ári með því að vinna fiskinn hér heima. Hundruð nýrra starfa í fiskvinnslu myndu skapast.
„Það þýðir ekki fyrir þá sem eru hlynntir því að flytja þetta út óunnið að segja að þetta hafi alltaf verið svona. Að ólíkt Norðmönnum séum við að flytja einungis 10 til 20 prósent óunnið. Það er ekkert hægt að líkja stöðunni 2024 saman við stöðuna á síðustu áratugum síðustu aldar. Framleiðslugetan í dag með þessum tækninýjungum sem hafa komið frá Marel og fleiri fyrirtækjum hefur margfaldast,“ segir Gunnar. Þessi þróun skýri hvers vegna stærstu útgerðarfyrirtæki landsins séu í dag mjög virkir kaupendur á uppboðsmörkuðum.
Sendum fisk til keppinautanna
„Það vantar hráefni til vinnslu. Þess vegna er það einkennilegt að pólitíkin hafi ekki gripið inn í þessa þróun. Það er galið að horfa á eftir tugum þúsunda tonna fara óunnin frá landinu inn á fiskvinnslur sem keppa við okkur á meginlandi Evrópu. Það eru engar hindranir eða álögur,“ segir Gunnar og bendir á að hér sé einnig um ímyndar- og markaðsmál að ræða.
„Við fórum ekki í gegnum þrjú þorskastríð til þess að láta Evrópusambandið eða einhverjar þjóðir erlendis ákveða hvort við flökum okkar fisk eða ekki. Við erum fullvalda þjóð og getum alveg tekið ákvörðun um það með vinnsluskyldu hvort við flökum okkar fisk eða ekki. Þetta er líka spurning um ímyndar- og markaðsmál því við missum tökin á hagsögu fisksins um leið og hann fer heill frá landinu,“ segir Gunnar. Margir séu nú sama sinnis og hann.
Flestir komnir á vagninn
„Mörg ef ekki flest aðildarfélaga SFS eru komin á vagninn. Þannig að ég veit ekki rftir hverju við erum að bíða. Ég er ekki að tala um veiðigjöldin í þessu máli heldur bara um það að auka verðmætin í þessu landi og standa vörð um íslenska fiskvinnslu, það eru mín skilaboð. Allir sem til þekkja eru mér sammála að við getum flakað allan þorsk og alla ýsu sem kemur að landi í dag. Aðrar tegundir kæmu svo koll af kolli inn í þessa stefnu,“ segir Gunnar.
Þá bendir Gunnar á að afurðaverð á þorski og ýsu hafi hækkað stórkostlega milli fiskveiðiára.
„Verðhækkun á heilum þorski er tæpar 100 krónur á kíló eða sem nemur um tuttugu milljörðum króna milli fiskveiðiára. Þá er verðhækkun ýsuafurða einnig að skila auka milljörðum til landsins. Þetta eru frábær tíðindi en upphæðin nemur nærri því sem við töpuðum á því að missa af loðnuvertíð,“ segir Gunnar. Í öllu „fárinu“ um veiðigjöldin síðustu mánuði hafi enginn bent á þetta.
Ekki 80 heldur 100 prósent
„Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú að við setjum hníf á allan fisk áður en hann fer frá landinu. Ekki 80 prósent heldur 100 prósent. Við getum ekki skrifað undir það að ráðamenn og forystufólk í okkar iðnaði á hátíðarog tyllidögum komi fram og segja að þau vilji auka verðmætin þegar þetta dauðafæri er fyrir framan okkur – að með breyttum áherslum sé hægt að auka verðmætin gríðarlega og búa til hundruð nýrra starfa í landi,“ segir Gunnar. Tækifærin fyrir Ísland séu stórkostleg.
„Við eigum að auglýsa okkur af krafti sem hágæða matvælaþjóð sem elskar sína náttúru, skilur mikilvægi sjálfbærni og setur fólk og náttúru í fyrsta sæti. Persónulega er ég á þeirri skoðun að útflutningurinn greiði hlutfall af sínum tekjum til Íslandsstofu og þaðan áfram í langtum öflugri kynningu en við þekkjum í dag. Það er miklu betri leið en að hækka endalaust veiðigjöldin,“ segir Gunnar. Best sé að auka verðmætin og það geri menn með því að vinna saman sem ein öflug heild í íslenskum sjávarútvegi.
„Boltinn er hjá stjórnvöldum og vonandi sjáum við breytingar. Óheftur útflutningur á óunnu hráefni frá landinu er að aukast og við verðum að sporna við þessari þróun, fyrri ríkisstjórnir féllu allar á prófinu í þessu máli. Ég bíð spenntur eftir að vita hvað ný ríkisstjórn gerir í þessu máli,“ segir Gunnar Örlygsson.