„Ástandið er ekkert öðruvísi hjá okkur en öðrum í þessari grein, það er bara hörmulegt er óhætt að segja,“ segir Guðni Einarsson, framkvæmdastjóri Klofnings á Suðureyri sem þurrkar fisk og selur til Nígeríu. Þar hefur innlendi gjaldmiðillinn hrunið í verði allt undanfarið ár og afurðaverð íslenskra framleiðenda fallið um nær 40%. Þó er að verða örlítill viðsnúningur þessa dagana en algjörlega óvíst hvert framhaldið verður
Hráefnið; hausa, hryggi og afskorning, aðallega af þorski og ýsu, fær Klofningur frá útgerðarfyrirtækjum á Vestfjörðum og enginn skortur hefur verið á því. Eftirspurnin er söm og jöfn í Nígeríu og framboðið frá íslenskum framleiðendum ræðst af útgefnum kvóta hverju sinni. Með minnkandi kvóta hefur framleiðslan dregist saman og eykst svo þegar veiðiheimildir aukast. En það er mun minni kaupgeta nígerískra skreiðarkaupenda sem veldur því að fiskþurrkun og sala afurðum frá Íslandi til Nígeríu, sem er nánast eina landið sem kaupir þessar afurðir, stendur ekki undir framleiðslukostnaði um þessar mundir.
Gengið hrunið um mörg hundruð prósent
„En það er örlítil týra á perunni í dag því næran styrktist í dag og stendur nú í 1.430 nærum í einum dollara, en fór hæst í 1.530 nærur í gær,“ sagði Guðni þegar rætt var við hann fyrir nokkru. „Gengið hefur hrunið um mörg hundruð prósent á einu ári en aldrei jafn hratt og síðustu tvo til þrjá mánuði. Þennan örlitla viðsnúning nú má rekja til ákvörðunar nígerískra stjórnvalda að fjármálastofnanir í landinu liðki fyrir sölu á dollurum. Ég vona því að það séu jákvæðari tíðindi í vændum.“
Guðni segir ekki ljóst hvað valdi þessari niðursveiflu nema að hugsanlega megi rekja það til stjórnmálaástandsins í landinu. Nýr forseti tók við völdum í fyrra og við tók skortur á dollurum og verð á þeim rauk upp.
Opinbert svart gengi
Opinbert og skráð gengi nígeríska gjaldmiðilsins gagnvart dollar er um 950 nærur á móti einum bandaríkjadal. Viðskipti fara ekki fram á þessu gengi heldur þurfa skreiðarkaupendur að kaupa dollara á „gráum markaði“ á nærri 53% hærra verði. Svo er líka hægt að fá dollara á „svörtu gengi“ sem er enn hærra. Gráa gengið er í raun og veru opinbera svarta gengið. Munurinn á opinbera genginu og því gráa, gjaldeyrisálagið, rennur í sjóði hins opinbera, miðlara og banka. Svona er og hefur gangur mála verið í Nígeríu. Skreið var lengi vel tollafgreidd samkvæmt opinbera genginu sem var hagstætt fyrir framleiðendur og kaupendur. Nú er stuðst við gráa gengið og þar með hækkuðu tollarnir verulega. Síðan hafa borist fregnir af því að til standi að hækka tollana enn frekar. Það myndi draga enn frekar úr framlegð íslenskra framleiðenda og gera viðskiptin enn óarðbærari.
Framleitt úr um 100.000 tonnum á ári
„Ég las frétt um það að bankar í landinu ættu 5 milljarða dollara á reikningum og hefðu fengið fyrirskipun frá forsetanum og seðlabankanum um að selja. Lægsta gengið var á fimmtudaginn og þetta lága gengi hefur komið verulega niður á þessum viðskiptum. Það veldur því að við þurfum að lækka verð frá okkur. Núna á nokkrum vikum hefur verð frá íslenskum framleiðendum lækkað um 30-40% og það er afskaplega lítið sem eftir stendur hjá þeim. Við erum eiginlega komnir í þá stöðu að við höldum áfram þessum viðskiptum eingöngu til þess að halda þessari tengingu,“ segir Guðni.
Á ársgrundvelli eru framleidd um 20 þúsund tonn af afurðum og þar af hefur Klofningur framleitt um 1.500 tonn á ári úr um 7.500 tonnum af hráefni, þ.e.a.s. hausum, hryggjum og afskurði að mestu. Hjá Klofningi starfa um 36 manns og þar af um 16-18 manns við fiskþurrkunina. „Menn vakna og skoða gengið á hverjum morgni og vonast til þess að þreyja þorrann og kannski góuna líka. Það er ekki bjart yfir þessu í augnablikinu,“ segir Guðni.
Skreið sem velmegunartákn
Leiðin liggur ekki sjaldan til Nígeríu hjá forsvarsmönnum íslenskra fyrirtækja sem selja þurrkaðan fisk þangað. Guðni Einarsson hefur komið til þessa sjötta fjölmennasta ríkis heims nærri sjötíu sinnum. Hann segist samt enn þá takmarkað[1]an skilning hafa á efnahagsgangverkinu þar í landi. En siðirnir og neysluvenjurnar eru líka hlutir sem skipta framleiðendur máli. Í Nígeríu búa um 230 milljónir manns sem næstum til helminga aðhyllast kristna trú og íslamstrú. Og þurrkaður fiskur í máltíðum er til marks um góða efnahagslega stöðu og þurrkaður haus næstum stöðutákn. Guðni segir markaðinn tvímælaust fyrir hendi en dýrtíðin setur strik í reikninginn. Eitt af því undarlega í efnahagsmálum í Nígeríu sé að þrátt fyrir að gengi nærunnar hafi fallið um nær 200% á síðustu tveimur árum sjái þess ekki stað í verðbólgutölum. Samkvæmt vefritinu www.tradingeconomics.com var verðbólgan í desember tæp 29% og hafði reyndar aldrei verið hærri í þrjá áratugi. Hefðin er sú að tvær til þrjár fjölskyldur borða saman kannski tvisvar í viku og hjá hverri og einni. Samkeppni er í súpugerðinni og sú fjölskylda sem ekki hefur haus í súpunni, hana setur dálítið niður. Heil skreið er höfðingleg gjöf í landinu og gjarnan afhent við sérstök tækifæri svipað og þegar blóm eru gefin hér á landi.