Óvenju slæm staða hefur verið undanfarnar vikur vegna lúsaálags á sunnanverðum Vestfjörðum. Þeta kemur fram á vef Matvælastofnunar.

„Í ljósi þeirra aðstæðna sem upp eru komnar og sem viðleitni til þess að hafa lúsafjölda í lágmarki yfir veturinn hefur Matvælastofnun heimilað lyfjameðhöndlanir á átta eldissvæðum eftir lögbundna umsögn Fisksjúkdómanefndar og Hafrannsóknarstofnunar,“ segir í tilkynningu á mast.is.

Sagt er að um sé að ræða tvö eldissvæði í Tálknafirði, fjögur eldissvæði í Arnarfirði og tvö í Dýrafirði. Svæðin verði meðhöndluð með baðlyfi annars vegar og lyfjafóðri hins vegar.

Lúsalyfin neikvæð fyrir vistkerfið

„Lúsalyf geta haft neikvæð áhrif á vistkerfi í nærumhverfi eldiskvía. Eins sýnir reynsla nágrannalanda að laxalús getur myndað ónæmi gegn lyfjum. Þess vegna er notkun lyfja í baráttunni gegn lús úrræði sem ekki skal beita nema í algerri neyð,“ segir í tilkynningunni.

Af þessum sökum segist Matvælastofnun hafa hvatt fyrirtæki til þess að leita leiða til að ná tökum á lúsaálaginu með öðrum aðferðum. „En í þessum tilvikum var nauðsynlegt fyrir fyrirtækin að grípa inn í með lyfjameðhöndlun.“

Þá segir að mikilvægt sé að fiskurinn sé með eins lítið af laxalús og mögulegt er í vetur til að koma í veg fyrir sáramyndun þegar gróandinn sé sem minnstur sökum lágs hitastigs í sjó.

Tvær tegundir lúsa hér

„Eins er mikilvægt að lúsaálag sé sem minnst í vor þegar viðkvæmur göngutími villtra laxfiska hefst, en lúsin hefur hingað til átt erfitt með að fjölga sér á veturna vegna lágs hitastigs sjávar,“ segir Matvælastofnun.

Útskýrt er að á Íslandi séu einkum tvær tegundir lúsa; laxalús og fiskilús eða grálús. Báðar tegundirnar séu náttúruleg sníkjudýr á laxfiskum í sjó. Laxalús finnist eingöngu á laxfiskum enn fiskilús sé mjög ósértæk á hýsla og sé á fjölda mismunandi fisktegunda.

„Laxalúsin er stærri en fiskilúsin og hún nærist á roði laxfiska og getur valdið umfangsmiklum sárum sem opna möguleika fyrir tækifærissýkla í umhverfi fiskanna. Líkt og laxalúsin, nærist fiskilúsin einnig á roðinu. Hún er hins vegar mun smærri, og veldur ekki sárum enda útbúin sogskálum í stað öflugra bitkróka í kjafti laxalúsar. Hún orsakar þó vanlíðan og streitu hjá hýsli sínum, og í sumum tilfellum smávægilegum punktblæðingum,“ er rakið á mast.is.

Streituvaldandi fyrir eldisfiska

Álagið af laxa- og fiskilús á eldisdýr er sagt vera streituvaldandi. Líkt og aðrir sjúkdómsvaldar veikist ónæmiskerfi fiskanna og þeir verða móttækilegir fyrir hvers kyns smitsjúkdómum, svo sem veirusjúkdómum en einnig tækifærissýklum eins og bakteríum, sem berast í sár fiska og auka verulega umfang þeirra.

„Álag vegna lúsasmits getur enn fremur valdið lystarleysi hjá fiskum, sem hefur áhrif á vöxt hans og almennt heilsufar. Sé þéttleiki lúsanna mikill er hætta á að smitálag af hennar völdum verði sömuleiðis mikið með tilheyrandi álagi á nálæg eldissvæði,“ segir Matvælastofnun.