Verð á íslenskum sjávarafurðum í erlendri mynt hefur verið í hækkunarfasa undanfarna 12 mánuði og var verðið í ágúst hærra en það hefur áður mælst á tímabilinu 1990 til 2014 eða svo langt aftur sem tölur Hagstofunnar ná. Þetta kemur fram í frétt frá Hagfræðideild Landsbankans á vef bankans.
Verð á sjávarafurðum féll hratt í kringum áramótin 2008/2009 en á þeim tíma féll heimsmarkaðsverð á flestum hrávörum vegna áhrifa alþjóðlegu fjármálakreppunnar. Haustið 2009 tók verðið að skríða upp á við á ný og náði það síðan tímabundnu hámarki um áramótin 2011/2012. Eftir það lækkaði verðið tiltölulega hratt á ný en byrjaði síðan að hækka aftur hratt í vor.
Uppsjávarfiskur hækkað meira en botnfiskur
Á síðustu mánuðum hefur verð á botnfiski hækkað nokkuð en verð á uppsjávarfiski (loðna, síld, makríll og kolmunni) lækkað lítillega. Yfir lengra tímabil hefur verð uppsjávarfisks reyndar hækkað verulega umfram botnfisk. Þannig hefur orðið 150% hækkun á uppsjávarfiski frá 2006 en 11% hækkun á botnfiski á sama tíma.
Töluvert meiri verðsveiflur einkenna verð á uppsjávarfiski en botnfiski. Þannig hefur staðalfrávik mánaðarlegra breytinga uppsjávarfisks verið 3,8% frá 2006 samanborið við 1,8% hjá botnfiski.