ff
Makrílveiðar Norðmanna eru að hefjast fyrir alvöru. Fyrstu nótaskipin hafa landað afla sínum en verð á markríl hefur lækkað, að því er kemur fram á vef samtaka norskra útvegsmanna.
Reyndar hafa minni makrílbátar í Noregi verið að veiðum undanfarið en norska síldarsamlagið fékk fyrstu tilkynningar um afla stærri nótaskipa nýverið. Þrjú skip fengu samtals um 1.000 tonn.
Staðan er erfið á mörkuðum fyrir makrílafurðir og það hefur áhrif á fiskverð. Verð fyrir makríl sem fékkst á uppboði hjá norska síldarsamlaginu nú er næstum helmingi lægra en á sama tíma í fyrra. Verðið er nánast það sama og það var í upphafi vertíðar árið 2010, eða 6 til 7 krónur á kíló (127 til 148 ISK). Fyrir tveimur árum hækkaði makrílverðið þegar leið á haustið og norskir fiskimenn vonast til þess að það sama gerist í ár.