Verð á hausuðum og slógdregnum hvítfiski á alþjóðlegum mörkuðum hefur almennt hækkað meira en kjúklingar og kjöt. Fyrir suma er þetta farið að minna á stöðuna í árslok 2007 og ársbyrjun 2008 þegar verð á frystum þorski fór í 5.300 dollara tonnið sem er það hæsta nokkru sinni. Samkvæmt Undercurrent News er fyrir að ekki dragi úr veiðum í Barentshafi nema um 6% en væntingar hafi verið um allt að 13% samdrátt. Þetta gæti dregið úr þrýstingi á verðhækkanir á þorski en hugsanlegt er einnig að væntingar um meiri niðurskurð hafi þegar skilað sér inn í verðin.
Í samantekt í Undercurrent segir að eftir þessa miklu hækkun fyrir rúmum tíu árum hafi markaðurinn brugðist við með þeim hætti að draga verulega úr kaupum á þorski næsta eitt og hálfa árið. Í kjölfarið féll verðið niður í um 2.700 dollara tonnið. Nú virðist sem svipuð staða sé að koma upp. Verð á tonni af hausuðum og slógdregnum þorski hafi hækkað í 4.500-4.600 dollara á tonnið og verð á tonni af hausaðri og slógdreginni ýsu sé komið í um 3.500 dollara tonnið en einnig er búist við niðurskurði í aflaheimildum á ýsu fyrir næsta ár.
Búist hafi verið við snarpari niðurskurði í Barentshafi og útlit er fyrir minna framboð af kyrrahafsþorski. Á Groundfish ráðstefnunni, sem haldin var í London 9.-11. október kom fram að áætlað heildarframboð af atlantshafsþorski á næsta ári verði 1.140.000 tonn í samanburði við 1.210.000 tonn á þessu ári sem rekja má til minni aflaheimilda Rússa og Norðmanna á næsta ári.
Álíka verð og jafnvel hærri
„Það er erfitt að spá um framtíðina en það er engin vísbending um þessi þróun eigi eftir að ganga til baka. Það hefur verið nokkuð stöðug þróun í verðum í erlendri mynt og ekkert sem bendir til þess á þessari stundu að það verði með einhverjum öðrum hætti. Ég get ekki fullyrt að verðin séu núna í sögulegu hámarki. Það má vel vera að hægt sé að finna einhverja tiltekna vöru á tilteknum markaði á verði sem er í sögulegu hámarki. Annars held ég að við höfum séð álíka verð og jafnvel hærri á lykilmörkuðum áður. Þetta hefur verið hægfara verðþróun upp á við sem er ákjósanlegasta staðan. Í þessu sambandi hefur mér alltaf fundist áhugavert viðmið að skoða hvernig fiskverð þróast í samanburði við önnur prótín, það er að segja kjúkling og kjöt. Við sjáum að þar hefur aðeins skilið á milli. Fiskur hefur hækkað meira í verði undanfarna tólf til átján mánuði og sumir segja að í því felist ákveðin vísbending um að menn þurfi að fara varlega,“ segir Helgi Anton Eiríksson, forstjóri Iceland Seafood International, í samtali við Fiskifréttir.
Hann bendir á að minni niðurskurður verði í þorskkvóta í Barentshafi en menn hafi átt von á. Sé horft á málið út út frá væntingum sé niðurskurðurinn því töluvert minni.
„En vissulega er framundan samdráttur í framboði. Hvort í þessu felist þrýstingur á verð upp á við ræðst af því að hve miklu leyti væntingarnar um 13% samdrátt í Barentshafi hafi þegar verið komnar inn í verðið. En í þessu felast ekki róttækar breytingar og almennt er mjög erfitt að spá fyrir um hvernig verð komi til með að þróast á næstu mánuðum. Eftirspurn er allavega víðast hvar sterk.“
Minna framboð af ufsa
Alexey Pchelintsev, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsmála hjá FEST samstæðunni í Rússlandi, sem gerir út fjóra togara á þorsk- og ufsaveiðar í Rússlandi, segir að sé tekið mið af lögmálum framboðs og eftirspurnar eigi verðin líklega eftir að hækka en takmörk séu á því eins og allri annarri vöru. Hann sér enga ástæðu fyrir því að verðin ættu að lækka. Eftirspurn sé mikil, fiskveiðarnar sjálfbærar og verðin stöðug og há, sérstaklega fyrir hausaðan og slógdreginn fisk.
Í greininni í Undercurrent er bent á að verð á ufsa á alþjóðlegum markaði hafi einnig hækkað og útlit sé fyrir minnkað framboð. Á Groundfish Forum komu fram tölur um að framboð á alaskaufsa færi úr 1.543.000 tonna í 1.450.000 tonn á næsta ári. Búist er við svipuðu framboði af rússneskum ufsa þannig að heildarframboðið á næsta ári fari úr 3.450.000 tonnum í 3.337.000 tonn á næsta ári.