Verð á fiskimjöli er mjög hátt um þessar mundir og er nálægt sögulegu hámarki. Haustvertíð á ansjósu í Perú er í mikilli óvissu og eru allar líkur á því að verðið hækki enn frekar, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
El Ninjo veðurfyrirbærið hamlaði veiðum í vor við Suður-Ameríku. Perú náði þannig ekki að veiða allan ansjósukvóta sinn á vorvertíð. Framboð á fiskimjöli hefur minnkað í kjölfarið og verð hækkað.
Nú eru einnig blikur á lofti varðandi haustvertíð því hafrannsóknastofnunin í Perú náði ekki mælingu á ansjósustofninum í nýlegum leiðangri.
Um þetta leyti í fyrra fengust í kringum 10 krónur norskar fyrir kílóið af fiskimjöli en verðið fór í um 12 krónur síðastliðið vor. Hækkunin er um 20%.Verð hefur haldist mjög hátt síðan og er svipað og 2013 þegar það var í sögulegu hámarki. Vegna óvissunnar í Perú eru líkur á að verðið hækki enn frekar í haust og vetur.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.