Verð sjávarafurða i erlendri mynt hefur síðustu misseri verið í hægu hækkunarferli frá og með öðrum fjórðungi 2009. Nú hefur verðið hins vegar lækkað tvo mánuði í röð. Verðið nú er 3,4% hærra en fyrir 12 mánuðum mælt í erlendri mynt. Tölurnar undanfarna mánuði sýna að aðstæður á mörkuðum erlendis eru að ná betra jafnvægi.

Þetta kemur fram í greiningu IFS. Þar segir að verð á íslenskum sjávarafurðum (meðaltal allra afurðaflokka) mælt í erlendri mynt hafi lækkaði um 1,1% í febrúar síðastliðnum. Útreikningar IFS miðast við tölur um framleiðsluverð í febrúar sem Hagstofan birti í síðustu viku.

Svimandi hátt verð á fiskimjöli

Verð á fiskimjöli er mjög hátt eða 1.780 USD/tonnið og hefur hækkað mikið undanfarið. Það eru góð tíðindi fyrir íslensku sjávarútvegsfyrirtækin, sérstaklega m.t.t. kolmunnaveiða. Verð á sjófrystum botnfiskafurðum hækkaði vel í verði á síðari hluta ársins 2009 en nú hefur hægt á þeirri þróun.

Verð á saltfiski er enn fremur lágt enda er efnahagsástand á mikilvægum mörkuðum í S-Evrópu erfitt.

Afurðaverð í erlendri mynt er nú  álíka hátt og um mitt ár 2006. Núverandi verð er að mati IFS greiningar ásættanlegt fyrir flest íslensku sjávarútvegsfyrirtækin.