Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS, segir makrílinn stóran og líta vel út en eigi þó eftir að bæta á sig fitu. Skipið er á leið til Vopnafjarðar með fyrsta makrílafla ársins, alls 300 tonn sem veidd voru í fjórum holum sunnan og suðaustan Vestmannaeyja.
Frá þessu er greint á vef HB Granda , og rætt við Berg sem segir brælu hafa orðið til þess að ákveðið var að sigla með aflann til Vopnafjarðar.
„Það er vindstrengur með allri suðurströndinni og bræla í augnablikinu. Ég veit að áhöfnin á Víkingi AK, sem fór á miðin í gær, bíður átekta eftir því að veðrið gangi niður og þótt við höfum leitað austur kantinn á leiðinni frá veiðisvæðinu þá hefur ekki viðrað til veiða.“