Hið nýja og glæsilega uppsjávarveiðiskip HB Granda, Venus NS 150, er væntanlegt til heimahafnar á Vopnafirði eftir hvítasunnu. Vonir standa til að skipið haldi frá Tyrkalandi, þar sem það var smíðað, seint í kvöld eða í síðasta lagi á morgun. Gert ráð fyrir því að heimsiglingin taki 12 daga. Þetta kemur fram á vef HB Granda.

,,Mér líst vel á skipið. Annað er ekki hægt. Allt við þetta skip er mun stærra, rýmra og betra en við eigum að venjast,“ sagði Guðlaugur Jónsson, skipstjóri á Venusi, er rætt var við hann í gærkvöldi.

Farið var í tvær reynslusiglingar ytra og reyndist skipið og allur búnaður afar vel að sögn Guðlaugs. Hann mun sjá um að sigla Venusi heim til Vopnafjarðar og eftir komuna þangað verður íbúum hreppsins og öðrum gestum boðið að skoða skipið.