Velta tæknifyrirtækja í sjávarklasanum á Íslandi nam tæpum 66 milljörðum á árinu 2012 og jókst um 13% frá 2011 samkvæmt niðurstöðum nýrrar rannsóknar Íslenska sjávarklasans.
Fyrirtækin sem um ræðir hanna, þróa og framleiða veiðarfæri, kör, umbúðir, vélbúnað eða hugbúnað fyrir sjávarútveg og selja vörur sínar undir eigin vörumerki en í dag tilheyra um 70 fyrirtæki þessum hópi.
Á umræddu tímabili varð lítill vöxtur í fiskveiðum og fiskeldi samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands. Þetta þýðir að vöxtur þessara fyrirtækja á árinu 2012 hefur farið fram úr væntingum, en gert var ráð fyrir 5-10% vexti á árinu 2012.
Tæknigeirinn í sjávarklasanum vex umfram sjávarútveg og fiskeldi, umfram fiskvinnslu og umfram þjóðarframleiðslu. Fyrirtækin hafa mikla vaxtarmöguleika og mikilvægt er að þessi fyrirtæki geti sótt fjármagn sem gerir þeim kleift að markaðssetja sig alþjóðlega, segir í frétt á vef Sjávarklasans.