Elías Jonsson hefur gengið til liðs við Vélfag, sem sérfræðingur í vöru- og tækniþróun. Elías mun leiða frekari þróun á vatnsskurðar- og gervigreindarlausnum fyrir UNO vélina.
Elías er reyndur sérfræðingur í gervigreind og vatnsskurðartækni. Hann starfaði áður hjá Marel og Völku, þar sem hann þróaði vatnsskurðarlausnir síðastliðin 4 ár en þar á undan starfaði hann hjá ROSS Intelligence í San Francisco við þróun gervigreindarlausna.
„Vélfag er framsýnt fyrirtæki sem er tilbúið að ryðja slóðir sem enginn hefur rutt áður. Það hefur verið gaman að fylgjast með þeim metnaðarfullu plönum sem fyrirtækið hefur sýnt á síðastliðnum árum og horfa uppá þau verða að veruleika með tilkomu UNO vélarinnar. Það er því mjög spennandi að vera hluti af þeirri frábæru og metnaðarfullu vegferð sem Vélfag er á og hjálpa Vélfagi að móta framtíð sjávarútvegs í heiminum.”, segir Elías.
Trausti Árnason, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir Vélfag vera að stíga stór skref um þessar mundir með UNO lausninni og því sé verið að stækka og styrkja hópinn til að takast á við áskoranir markaðarins. Elli, er mikill fengur og styrkur á þessum tímapunkti fyrir næstu skref í þeirri vegferð,“ segir Trausti.
UNO fiskvinnsluvélin er þegar komin í notkun hér á landi en vélin sinnir fjórum verkþáttum í vinnslu á bolfiski, þ.e. hreinsun á beingarði, flökun, snyrtingu og roðflettingu.