„Rannsóknir sýna að verkefnið hefur heppnast vel og að það er mögulegt að byggja upp lífvænlega laxastofna eftir að ráðið hefur verið niðurlögum á  Gyrodactylus salaris (roðflyðrusýki) með kemískum efnum.“

Þetta segir Norska dýralæknastofnunin í nýrri skýrslu um aðgerðir til að byggja upp laxa- og sjóbirtingsstofna að nýju í ám á Rauma-svæðinu í Vestur-Noregi á árunum 2015 til 2023.

Gyrodactylus salaris er gríðar skætt sníkjudýr sem fjölgar sér hratt þar sem því slær niður. Umræddar ár eru Rauma ásamt Istra, Måna, Innfjordánni og Isa/ Glutra sem allar voru með bæði laxa- og sjóbirtingsstofna þar til ráðist var í það á árunum 2013 og 2014 að setja kemíska efnið Rotenon út í árnar til að freista þess að útrýma roðflyðrusýki af vatnasvæðinu.

Miklar sleppingar og ræktun

Erfðaefni úr laxfiskunum voru tekin og geymd í genabönkum í Hamre, Herje og Haukvik. Á árunum 2015 til 2023 voru síðan framleidd í allt 8.943.190 laxahrogn og 9.700.065 í genabönkunum. Þau voru ýmist sett út í árnar sem augnahrogn eða ófóðruð seiði og fóðruð seiði hvert í sína upprunaá.

Að auki var alls sleppt 133.550 eins árs löxum í Rauma, Måna og Innfjordána og 39.830 eins árs sjóbirtingum í Rauma og Innfjordána á árunum 2015 til 2016.

Genabankarnir skila sínu

Allir laxar og sjóbirtingar sem safnað var í rannsókninni voru lengdarmældir  og hreisturssýni tekin til aldursgreiningar og til að athuga hvort um væri að  ræða strokulax úr eldiskvíum. Mynd/Norska dýralæknastofnunin
Allir laxar og sjóbirtingar sem safnað var í rannsókninni voru lengdarmældir og hreisturssýni tekin til aldursgreiningar og til að athuga hvort um væri að ræða strokulax úr eldiskvíum. Mynd/Norska dýralæknastofnunin

Samhliða því að þessi hrogn og seiði voru sett út í árnar fóru fram rannsóknir í ánum með það að markmiði að skrá árangurinn. Þær fólu í sér útreikninga á þéttleika af seiðum og fullorðnum fiski. Einnig var skoðað hversu stór hluti þessara fiska var upprunninn úr genabönkunum.

Að sögn Norsku dýralæknastofnunarinnar sýna rannsóknirnar að hrogn og seiði sem sett voru út í árnar eru hátt hlutfall af fiski í ánum. Oftast sé þessi hluti ráðandi í ungfiski þessara stofna. Á sama hátt sé hlutfall fiska sem komu úr genabönkunum hátt meðal þeirra laxa sem gengið hafa til sjávar og skilað sér aftur í árnar.

Jákvæð teikn í sjóbirtingi

„Þetta þýðir að hin erfðafræðilega breidd sem safnað var áður en meðferðin hófst 2013 og 2014 er komin aftur í árnar og skapar grunninn að núverandi fiskframleiðslu,“ segir í niðurlagi skýrslu Norsku dýralæknastofnunarinnar.

Þó kemur fram að aðgerðirnar hafi ekki lánast jafn vel í öllum ánum. Laxastofnar í Rauma og Innfjordánni séu á góðri leið með að verða lífvænlegir en ástandið í Isa/Glutra og i Måna sé ekki eins tryggt. Jafnvel þótt hrognin frá genabönkunum séu góður partur af stofnunum þar sýni rannsóknir að staðan á laxaframleiðslunni gæti verið betri, sérstaklega í Måna. Hvað varði sjóbirting sé þróunin á svæðinu í heild aftur á móti afar jákvæð.