Norska sjávarútvegsblaðið Fiskeribladet/Fiskaren birtir í dag laun forstjóra stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna sem skráð eru í kauphöllinni í Osló en launin er að finna í ársreikningum fyrirtækjanna.
Efstur á blaði er forstjóri fiskeldisrisans Marine Harvest sem er með starfsemi víða um heim. Laun og bónusar hans námu jafnvirði 120 milljóna íslenskra króna á síðasta ári. Fjármálastjóri sama fyrirtækis var með 95 milljónir ISK og yfirmaður fiskeldis með 88 milljónir ISK. Forstjóri Leröy Seafood Group var með 94 milljónir ISK. Forstjóri Norway Royal Salmon fékk 86 milljónir ISK og forstjóri Austervoll Seafood var með 79 milljónir. Í öllum tilvikum er miðað við laun og bónusa en lífeyrisgreiðslur eru þar fyrir utan.
Þessi laun blikna þó í samanburði við forstjóralaunin hjá Aker samsteypunni sem námu 230 milljónum ISK í fyrra og að viðbættum bónusum 372 milljónum ISK.