Veiðum skipa HB Granda á norsk-íslensku síldinni er lokið á yfirstandandi vertíð. Skipin eru búin að veiða upp heimildir félagsins í NÍ síld þetta árið og reyndar einnig hluta þess sem heimilt er að veiða af úthlutun næsta árs, að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins.
Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs félagsins, er síldin nú gengin það langt inn í Síldarsmuguna að hæpið er að halda veiðunum áfram, a.m.k. með það að markmiði að frysta síldina til manneldis.
,,Íslensku skipin eru nú að veiðum ásamt fjölda norskra og færeyskra skipa í Síldarsmugunni í um 410 sjómílna fjarlægð frá Vopnafirði og það er of löng sigling til þess að það borgi sig að halda veiðunum áfram,“ segir Vilhjálmur. Eins og fram kemur í annarri frétt hér á heimasíðunni er Ingunn AK nú á leið til lands með um 400 tonna afla. Samkvæmt því hafa skip HB Granda veitt alls um 40 þúsund tonn af norsk-íslensku síldinni frá því að veiðarnar hófust í lok maí sl. Því til viðbótar koma um 18.500 tonn af makríl og 500 tonn af kolmunna á sama tíma. Heildarafli skipanna er því um 59 þúsund tonn á þessum fjórum mánuðum. Veiðarnar gengu vel og var mun styttra að sækja NÍ síldina í ár en undanfarin ár.
Að sögn Vilhjálms mun Ingunn AK væntanlega fara í rannsóknarleiðangur á útbreiðslu á makríl, að lokinni löndun, í samráði við Hafrannsóknastofnun og Sjávarútvegsráðuneytið. Faxi RE er kominn til Akraness þar sem verið er að dytta að skipinu og Lundey NS er á leið frá Vopnafirði til Reykjavíkur en þar verður skipt um spiltromlur skipsins.