Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í byrjun vikunnar eftir 40 daga veiðitúr í rússnesku og norsku lögsögunum í Barentshafi. Svo var endað í íslensku lögsögunni áður en landað var á mánudagsmorgun. Afraksturinn var rúmlega 800 tonn og uppistaðan þorskur. Aflaverðmætið er áætlað um 315 milljónir króna. Sigurður Hörður Kristjánsson var að fara sinn fyrsta túr á Blæng sem skipstjóri.

Sigurður Hörður hefur áður verið Noregsmegin í Barentshafinu en einungis einu sinni áður Rússlandsmegin. Hann sagði í spjalli við Fiskifréttir að þetta væri í sínum huga eins og hver önnur veiðiferð þótt langt hafi verið á miðin að þessu sinni og úthaldið langt. Túrinn byrjaði 10. nóvember og var haldið rakleiðis til Múrmansk þar sem rússneskur eftirlitsmaður var tekinn um borð. Siglingin þangað frá Norðfirði tók rúma fjóra sólarhringa. Veiðar hófust svo upp úr miðjum nóvember á Skolpen banka sem er við landhelgislínuna milli Rússlands og Noregs. Þar voru færeysk skip að veiðum og var lítið að hafa.

Rússneski eftirlitsmaðurinn var um borð allan tímann sem skipið var innan rússneskrar lögsögu. Sigurður Hörður segir svo skemmtilega hafa viljað til að Geir Stefánsson stýrimaður sé altalandi á rússnesku. Samskiptin voru fyrir vikið afbragðsgóð jafnt við eftirlitsmanninn, stjórnvöld og önnur skip. Þaðan hafi borist fregnir þótt í raun hafi ekki mikið vera að frétta. 4-5 færeysk skip voru í rússnesku lögsögunni og heill hópur af rússneskum skipum.

„Svo leituðum við austur eftir í nokkra daga og líklega farið einar 350 sjómílur. Þegar við vorum komnir sennilega um 80 sjómílur austur af Novaya Zemlya komum við fram á blett og þar náðum við restinni af kvótanum í rússnesku lögsögunni,” segir Sigurður Hörður.

50-60 tonn á dag

Hann segir að þetta hafi ekki verið nein mokveiði en þó þetta 50-60 tonn á dag upp úr sjó. Þetta hafi verið „þétt nudd”. Um var að ræða ágætan vinnslufisk af millistærð. Fiskgegnd fari minnkandi í Barentshafinu bæði í rússneskri og norskri lögsögu og kvóti beggja landa var skertur um 20% á þessu ári. Í framhaldinu færðu men sig Noregsmegin í Barentshafi þar sem enn voru óveidd um 220 tonn.

Aflinn úr Barentshafi var nánast eingöngu þorskur og t.a.m. ekki nema um 25 tonn af ýsu. Enginn ís var þar sem Blængur var að veiðum en veðrið var rysjótt allan túrinn.

„Það er myrkur á þessum slóðum allan sólarhringinn bæði Rússlands- og Noregsmegin. Þetta eru talsverð viðbrigði fyrstu dagana en svo venst það bara nokkuð fljótt. Við enduðum svo túrinn á Íslandsmiðum og það var reyndar ágætt að vera í birtu þar í nokkra klukkutíma yfir daginn. Við vorum í Seyðisfjarðardýpinu í einn sólarhring og tókum eitthvað dálítið af grálúðu.”