Bogi Hansen, sem er hafeðlisfræðingur hjá Havstovan, hafrannsóknastofnun Færeyja, verður í dag með erindi hjá Hafrannsóknastofnun um flæði vatns í báðar áttir yfir neðansjávar hryggnum milli Íslands og Færeyja.
„Í efri lögum streymir hlýr Atlantshafssjór frá Íslandslægðinni til Noregshafs (IF-innstreymi). Nálægt botninum er kalt vatn af heimskautauppruna ríkjandi og hluti þessa vatns fer yfir hrygginn sem IF-yfirfall,“ segir í kynningu á vef Hafrannsóknarstofnunar.
„Báðir þessir straumar eru hluti af Atlantic Meridional Overturning Circulation (AMOC), sem spáð er að muni veikjast með hnattrænni hlýnun. Í erindinu verður einnig fjallað um vatnsskipti á öllum Grænlands-Skotlandshrygg (GSR), tengsl þeirra við AMOC og þau ferli sem skapa þau og veita flestum þeirra mikinn stöðugleika,“ segir áfram um umfjöllunarefni Boga Hansen.
Leiðir yfir hrygginn hafa ekki verið þekktar
„Nýlegar fullyrðingar um að AMOC og „Golfstraumurinn“ séu nú þegar að veikjast verða ræddar. Mest áhersla verður lögð á hlýtt flæði Atlantshafsins yfir IFR. Þetta er mesta rennsli Atlantshafsins yfir GSR með miklum varmaflutningi inn á norðurskautssvæðið. Út frá fyrri athugunum þekkjum við breytileika hans í flutningum síðustu þrjá áratugi en leiðirnar yfir hrygginn hafa ekki verið þekktar,“ segir að endingu.
Bogi mun flytja erindi sitt á Málstofu Hafrannsóknarstofnunar í Hafnarfirði klukkan 12.30 og er hægt að fylgjast með á Youtube-rás stofnunarinnar. Fyrirlesturinn er á ensku.