Loðnuveiðum norskra skipa á Íslandsmiðum er að ljúka en veiðar þeirra í Barentshafi fara mjög hægt af stað að því er fram kemur í yfirliti Norges Sildesalgslag um loðnuveiðarnar í síðustu viku.

Í nýliðinni viku melduðu norsk loðnuskip um 24 þúsund tonn af Íslandsloðnu. Um 21 þúsund tonn fór í mjöl- og lýsisvinnslu en um 3 þúsund tonn í manneldisvinnslu. Meðalverðið var 1,67 NOK í bræðslu (35,2 ISK) en til manneldisvinnslu 2,27 NOK (47,9 ISK). Norsku skipin mega veiða hér 49.900 tonn í íslensku lögsögunni en afli þeirra er kominn í 46.100 tonn.

Loðnuveiði í Barentshafi var lítil fram eftir vikunni meðal annars vegna þess hvað veður var leiðinlegt. Loðnan sem fékkst var góð, lítil áta í henni og flokkaðist 42-44 stykki í kílóinu. Í lok vikunnar lægði og fleiri bátar voru komnir á miðin, 15-16 bátar. Veiðin í síðustu viku nam 2.100 tonnum. Meðalverð til manneldisvinnslu var 1,97 NOK (41,6 NOK).