Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra mælti í byrjun febrúar fyrir frumvarpi um veiðistjórn sandkola og hryggleysingja. Frumvarpið er að uppistöðu sama frumvarpið og forveri hennar, Kristján Þór Júlíusson, lagði fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga, að því undanskildu að allar hugmyndir um veiðistjórn grásleppu hafa nú verið teknar út úr því.

Bergþór Ólafsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði hana hvers vegna þetta hefði verið gert.

„Ég taldi rétt að leggja fram öll þau mál sem væru til þess fallin að ná afgreiðslu hér í þinginu og þess vegna skynsamlegra að hluta þetta tiltekna mál í sundur og freista þess að ljúka við þann hluta frumvarpsins sem sátt væri um,“ var svarið.

„Það er ekki þar með sagt að það þurfi ekki að fara betur yfir veiðistjórn á grásleppu,“ sagði hún.

Hún tók fram að grásleppuveiðimenn séu „víðast hvar sjálfir á því að rétt sé að hlutdeildarsetja grásleppu þó að Landssamband smábátaeigenda sé á öndverðum meiði.“ Niðurstaðan hafi því orðið sú, „að leggja fram þennan hluta frumvarpsins óbreyttan þar sem um er að ræða veiðistjórn á sandkola og hryggleysingjum þar sem um þann hluta frumvarpsins væri ekki ágreiningur.“

Svandís sagði ennfremur að ræða þurfi veiðistjórn grásleppu á öðrum vettvangi, „og við komum til með að gera það“. Tilefni væri til þess að taka þá umræðu, „til að mynda undir flaggi sérstakrar umræðu á þinginu og ég legg til að við hv. þingmaður efnum í slíka.“