Börkur NK kom með um 1.500 tonn af makríl til Neskaupstaðar í gærkvöldi. Vinnsla hófst þegar úr skipinu. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra og spurði fyrst hvar makríllinn hefði fengist.
„Við hittum á fisk í fyrrakvöld í Rósagarðinum vestan við Þórsbanka og það gekk vel að veiða. Við erum í veiðisamstarfi með Beiti, Barða, Vilhelm Þorsteinssyni og Margréti og það tók stuttan tíma að fá þennan afla. Fiskurinn gengur inn í íslensku lögsöguna úr þeirri færeysku og það er gífurlega mikilvægt að skuli veiðast svona í okkar lögsögu. Þetta er makríll af stærstu gerð, um og yfir 500 gramma fiskur og gullfallegur. Þetta leit vel út þegar við héldum í land en hafa ber í huga að makríllinn fer fljótt yfir, hann er fljótur að koma og fljótur að fara. Þegar veiðar ganga svona vel verða menn eðlilega mjög bjartsýnir og vonandi verður áframhald á þessu. Ég geri ráð fyrir að það taki tæpa tvo sólarhringa að vinna þennan afla og að því loknu verður haldið rakleiðis út á miðin á ný,“ segir Hálfdan.
Hörkuveiði áfram
Sigurður Jóhannesson skipstjóri á Beiti var einnig spurður hvort væri framhald á góðri veiði:
„Já það er hörkuveiði hérna hjá skipunum í veiðisamstarfinu en Börkur er farinn í land með um 1.500 tonn. Við erum komnir með um 1.700 tonn um borð en við munum ekki fara í land fyrr en lokið verður við að vinna úr Berki. Fram að því munum við veiða í önnur skip í samstarfinu. Þegar er búið að setja 400 tonn um borð í Margréti og akkúrat núna er verið að dæla í hana úr Vilhelm. Ég reikna með að það verði komin um 700 tonn í hana þegar því verður lokið. Við vorum virkilega heppnir að rekast á þennan fisk hér á Þórsbankanum en flest skip voru farin af þessu svæði þegar veiðin hófst af krafti. Þetta gaus allt í einu upp. Það má með sanni segja að makríllinn er dyntóttur fiskur. Nú eru allir bjartsýnir og við gerum okkur vonir um áframhaldandi góða veiði í íslenskri lögsögu,“ segir Sigurður.
Byrjaðir að flaka makríl
Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuvers Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, var spurður að því hvernig gengi að vinna makrílinn sem nú berst að landi.
„Það gengur vel. Til þessa hefur makríllinn verið hausskorinn en í morgun byrjuðum við að flaka. Makríllinn, sem nú er verið að vinna er afar stór og fallegur, en hins vegar er töluverð áta í honum. Vertíðin er farin að líta býsna vel út og við hér í fiskiðjuverinu erum bjartsýn á framhaldið,“ segir Geir Sigurpáll.