Afli erlendra skipa í íslenskri lögsögu á árinu 2016 dróst verulega saman frá fyrra ári að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Alls nam veiði erlendra skipa í lögsögu Íslands 77.753 tonnum á síðasta ári samkvæmt tölum á vef Fiskistofu. Þar af var botnfiskur 6.095 tonn. Til samanburðar má geta þess að í heild veiddu erlend skip 126 þúsund tonn árið 2015 en ekki nema 37 þúsund tonn árið 2014. Samdrátturinn milli áranna 2016 og 2015 er rúm 48 þúsund tonn, eða 38,3%. Hins vegar er veiðin á síðasta ári rétt um tvöfalt meiri en árið 2014.
Veiðar erlendra skipa í íslenskri lögsögu eru mjög sveiflukenndar og fer það einkum og nær eingöngu eftir því hvað loðnukvótinn er stór hverju sinni. Þau erlendu skip sem koma við sögu seinni árin eru frá þremur löndum: Noregi, Færeyjum og Grænlandi.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.