Hitabeltisfiskar sem nefndir hafa verið hrifsarar eða glefsarar á íslensku, snappers á ensku, eru víða veiddir í stórum stíl og seldir til neyslu. Bandaríkjamenn kaupa mest af þessum fiski, en Mexíkóbúar, Panamamenn og Brasilíumenn eru iðnastir við veiðarnar.

Skráningu á þessum veiðum og viðskiptum virðist hins vegar vera býsna ábótavant víða, eins og fram kemur í rannsókn sem Donna-Mareé Cawthorn og Stefano Mariani við Salford Háskólann í Manchester á Englandi hafa gert. Rannsóknin var birt nýverið á vef vísindatímaritsins Nature.

„Ef ekki er hægt að rekja fisk af nákvæmni í gegnum viðskiptin, eða tengja uppruna við neyslu, þá er mögulegt að ofveiða viðkvæmar tegundir af glefsurum og öðrum fiskum í staðinn fyrir að verndun,“ er haft eftir Mariani í frásögn Salford-háskóla af rannsókninni.

Útflutningsskrár frá Nýja-Sjálandi, sem flytur mikið út af glefsurum, benda til dæmis til þess, samkvæmt rannsókn þeirra Cawthorn og Mariani, að í raun séu þeir að selja aðra fisktegund af svonefndri kólguflekkjaætt, sem á Nýja-Sjálandi er yfirleitt nefnd snapper en heitir annars staðar silver seabream.

Af þeim sökum einum eru alþjóðlegar útflutningstölur fyrir glefsara 30 prósentum hærri en rétt væri. Höfundarnir leiða líkum að því að sama gildi um viðskipti með aðrar verðmætar tegundir fiska, sem ekki hafa verið skráð af neinni nákvæmni.

Ekki síður þykir ástæða til að hafa áhyggjur af því að viðskiptin með sumar fisktegundir eru neðanjarðarviðskipti, sem hvergi koma fram á skrám. Viðskiptavinir verslana og veitingastaða standa þá í þeirri trú að þeir séu að kaupa aðrar tegundir en í reynd er verið að selja þeim.

Vandamálið stafar, að mati höfunda, meðal annars af því að flokkunarkerfið í alþjóðaviðskiptum með sjávarfang er of gróft. Glefsarar skiptast til dæmis upp í meira en hundrað ólíkar tegundir, sem síðan eru flokkaðar undir einn hatt þannig að auðvelt er að lauma ofveiddum tegundum þar inn.

[email protected]