Von var á Lundey NS til Vopnafjarðar í nótt með um 660 tonn af íslenskri sumargotssíld. Aflinn fékkst í fjórum holum vestur af Garðsskaga og í Jökuldýpi um helgina og í gær.
,,Við tókum fyrsta holið um hádegisbilið á laugardag í skítaveðri. Það var svo ekki fyrr en í gær að komið var þokkalegasta veður og þá fengum við sæmilegan afla,“ segir Albert Sveinsson skipstjórin á vef HB GRANDA en er rætt var við hann var Lundey stödd út af Stokksnesi á leið til Vopnafjarðar.
Að sögn Alberts hefur síldar orðið vart víða vestur af landinu en hann segir lóðningarnar ekki sterkar á hverjum stað.
,,Þetta er frekar dapurt enn sem komið er en nú er skipunum að fjölga á miðunum og vonandi kemst betri mynd á veiðina fljótlega. Síldin er reyndar stór og góð og ætti að henta vel til vinnslu en það myndi henta okkur betur ef veiðin væri meiri,“ segir Albert Sveinsson.