„Áhuginn byrjaði með því að ég las bækur um heimskautafarana gömlu,“ segir Ragnar Axelsson ljósmyndari um kveikjuna að því að hann tók að beina sjónum sínum að Grænlandi fyrir margt löngu.

„Ég flaug fyrst á Kúlusukk nokkrar ferðir. Þá var verið að sækja sjúklinga. Þar voru alls konar læti í gangi og eru kannski enn stundum þótt við heyrum ekki mikið af því. Það fannst mér ekki spennandi að sjá eftir aðhafa lesið um allar þessar hetjur,“ segir Ragnar.

„En síðan fór ég í fyrstu alvöru ferðina til Thule þar sem nyrstu byggðir í heimi eru og sá alvöru töffara og varð spenntur. Fyrst fer maður náttúrlega bara til að taka flottar myndir en svo áttaði maður sig fljótlega á hvað var að gerast og ég byrjaði meðvitað að skrásetja þetta líf,“ segir Ragnar. Hann hafi í þessum efnum horft inn í framtíðina.

Eins og Kínverji á ísnum

„Ég var eins og Kínverji sem horfir langt fram í tímann og reynir að sjá fyrir hvernig hlutirnir verða eftir þrjátíu ár og fjörutíu ár og fimmtíu ár. Ég sá fyrir hnignun þessara þorpa og veiðimannakúltúrsins. Það hefur mest allt af því ræst nokkurn veginn,“ segir Ragnar sem var aðeins átján ára er hann fór fyrst til Grænlands. „Í dag er ég 67 ára en er jafn ungur og ég var þegar ég byrjaði á þessu, maður er bara eins ungur og maður hugsar held ég.“

Ragnar Axelsson á Grænlandi.
Ragnar Axelsson á Grænlandi.

Ragnar segir að frá því að hann byrjaði að mynda á Grænlandi hafi hann viljað sýna hversu miklir töffarar veiðimennirnir séu og erfiðleikana sem þeir glími við í afar krefjandi aðstæðum. Þær séu okkur mjög framandi þótt Grænland sé ekki langt undan.

„Ég fór alltaf þegar það var kaldast og verstu veðrin til að dokumentara líf þeirra þannig. Það er svo auðvelt að sigla í kringum ísjaka á gúmmíbát um hásumar og ekkert varið í það. Þú þarft að fara og vera innan um fólkið og kynnast því og komast inn í kúltúrinn; verða einn af þeim og fá samþykki þeirra og traust til að geta myndað þetta líf á eins eðlilegan hátt og hægt er. Ég held að ég sé með nokkuð heiðarlega nálgun og mynda raunveruleikann eins og hann er.“

Um allt á hundasleða

Ferðalögin norður á bóginn voru ekki einföld. Sækja þurfti um leyfi því flogið var beint á herstöðina í Thule sem er mjög norðarlega á vesturströnd Grænlands.

Ragnar Axelsson, RAX.
Ragnar Axelsson, RAX.

„Maður fékk leyfi í ákveðinn tíma og þurfti að vera kominn til baka á herstöðina aftur áður en hann rann út. Annars var bara farið að leita að þér á þinn kostnað. Ég fór til Qaanaaq og Siorapaluk sem er nyrsta þorp í heimi þar sem fólk býr alla jafnan allt árið. Það er einhver byggð í Kanada norðar sem er eins og veðurstöð þar sem fólk skiptist á vöktum en þarna býr fólk,“ segir Ragnar.

Að sögn Ragnars eru á bilinu fjörutíu til sextíu manns í Siorapaluk. Um sex hundruð manns séu í Qaanaaq. Til að komast út í þorpin var farið á hundasleðum.

„Ég fór allt á undasleðum fyrstu árin. Það er ekkert langt síðan maður fór að fara á vélsleðum og þeir fara ekki að veiða mikið á vélsleðum,“ segir Ragnar.

Mesti veiðimaður í heimi

Leið Ragnars liggur iðulega í Scoresbysund sem er á austurströndinni. Þar er ísbjarnarveiðimaðurinn Hjelmer Hammeken sem hann hitti fyrst fyrir 33 árum og hefur fylgst með síðan.

„Hjelmer er mesti veiðimaður Grænlands og í heiminum bara,“ segir Ragnar sem er að ljúka gerð bókar um Hjelmer sem á að koma út í sumar. „Það er dálítið falleg saga þegar maður fer að hugsa til baka. Við ætluðum ekki að gera þessa sögu strax heldur blanda henni inn í annað en svo er hún bara svo mikilvæg núna út af umræðunni um Grænland.“

Þegar Ragnar kom fyrst á Scoresbysund voru þar um 650 manns í þorpinu sem heitir  Ittoqqortoormiit. Nafn þorpsins þýðir Fólkið sem býr í stóra húsinu. Þar voru einnig tvö lítil þorp, Kap Tobin og Kap Hope, sem eru bæði yfirgefin í dag.

Ísbirnir á matseðlinum

Veiðimaður í ísveröld. Mynd/RAX
Veiðimaður í ísveröld. Mynd/RAX

„Það eru átta hundruð kílómetrar í næsta þorp frá Scoresbysundi. Ittoqqortoormiit er eitt afskekktasta þorp í heimi og það er erfitt að komast þangað. Þarna fór ég alltaf að veiða með Hjelmer og fleiri veiðimönnum sem eru vinir mínir. Farið var á hundasleðum um allt og verið í tjöldum og kofum við ströndina og úti á hafísnum,“ segir Ragnar.

Lengst hefur Ragnar verið á þessum slóðum í samfleytt fimm vikur. „Það er best að fara í viku eða í hálfan mánuð. Maður fær nóg að vera allan daginn að taka sömu myndina, sjá allt sem gerist og fanga rétta augnablikið. Maður er svo spenntur þegar maður mætir. Þetta er eins og að byrja fótboltaleik, þú hleypur og hleypur og svo í lokin þá hleypurðu ekki eins hratt. Að vera ekki of lengi en fara oftar er dálítið atriði.“

Veiðimennirnir í Scoresbysund mega að sögn Ragnars veiða 35 ísbirni á ári. Mesti ísbjarnakvótinn sé á austurströndinni. Veiðimennirnir og fjölskyldur þeirra borða ísbirnina. Síðan er reynt að selja skinnið.

Erfitt líf í skítakulda

„Þegar ég kom fyrst til Scoresbysund þá voru um sextíu veiðimenn í þorpunum öllum. Nú eru tíu eftir ásamt fjölskyldum sínum,“ segir Ragnar. Ungu krakkarnir í dag taki ekki mikinn þátt í veiðimennsku feðra sinna.

Veiðimaður í tjaldi. Mynd/RAX
Veiðimaður í tjaldi. Mynd/RAX

„Þetta er svo erfitt líf og hart. Þú ert í skítakulda í tjaldi að elta ísbjörn og veiða sel í hundana og fjölskylduna. Yngri kynslóðina sem er í skóla og lærir ýmsa hluti langar ekkert að lifa svona. Þannig að ég held að þessi kynslóð sem ég er búinn að elta í þessu sé jafnvel ein síðasta kynslóðin af veiðimönnum og þeim mun bara fækka og fækka. Og núna þegar það eru komnir nýir flugvellir og meiri aðsókn ferðamanna er það mín trú að lifnaðarhættirnir hjá þeim verði öðru vísi. Mín spá hefur ræst fram að þessu en við sjáum hvað gerist,“ segir Ragnar.

Íbúar í Ittoqqortoormiit voru um sex hundruð talsins þegar Ragnar kom þangað fyrst en nú hefur þeim fækkað um helming og litlu þorpin hafa lagst af.

Myndaði brottför síðasta þorpsbúans

„Það bjuggu 37 eða 38 manns í Kape Hope eða Vonarhöfða þegar ég kom þar fyrst. Fyrir um tveimur árum myndaði ég síðasta veiðimanninn fara og nú er þar enginn. Hann heitir Jens Emil og var orðinn veikur. Ég fór með Hjelmer að sækja Jens til að fara með hann á spítala. Jens er ekkert gamall, bara 67 eða 68 ára en ef þú myndir sjá hann myndir þú halda að hann væri á níræðisaldri, hann er búinn að frjósa svo oft. Hann kemur ekki til baka,“ segir Ragnar.

Þorpið Kap Hope er nú komið í eyði. Mynd/RAX
Þorpið Kap Hope er nú komið í eyði. Mynd/RAX

Kuldinn fer alls ekki vel með fólk, sérstaklega ef það er alveg stöðugt í honum að sögn Ragnars. „Jens Emil átti tuttugu systkini og þau eru tvö eftir. Og hann átti fjórar konur eða kærustur. Þær eru allar dánar,“ segir hann.

Eins og áður segir eru ísbirnirnir étnir. „Ég hef heyrt að það hafi orðið aukning á krabbameini á austurströndinni. Það eru þungmálmar sem berast með hafstraumum í ísbjarnakjötinu enda eru þeir toppurinn á fæðukeðjunni. Ég hef spurt veiðimennina um þetta. Þeir segja að þetta sé bara bull og kjaftæði og borða ísbjörninn áfram en það er skrítið að það skuli vera meiri veikindi á austurströndinni heldur en á vesturströndinni þar sem þeir borða ísbjörninn ekki,“ bendir Ragnar á.

„Ég sakna gamla Grænlands“

Þorpin nærri Ittoqqortoormiit lögðust hægt og rólega af. Hafísinn var orðinn svo unnur á tímabili að hann var orðinn hættulegur. Ragnar segir ísinn vera að þykkna aftur. Hann hafi nú verið góður í tvö ár. Miklar sveiflur séu í þessu og flókið samspil og hann velti fyrir sér áhrifum þess að Grænlandsjökull bráðni og skili 35 milljónum tonnum af ís og ferskvatni til sjávar á hverri klukkustund.

Hjelmer Hammeken á bát sínum. Mynd/RAX
Hjelmer Hammeken á bát sínum. Mynd/RAX

„Heimamenn  segja mér að það hafi alltaf verið alls konar sveiflur en Hjelmer sagði einu sinni við mig: Ég sakna gamla Grænlands, þegar ísinn og hafísinn var öruggur. Hann hafði áhyggjur af breytingu á  hafísnum og veðurfarinu. Nú er ísinn búinn að vera góður í tvö ár en hafísröndin sem þeir fara eftir út í mynni fjarðarins er langt inn í fjörðinn núna en var mikið utar áður,“ lýsir Ragnar sem sjálfur kveðst merkja mikinn mun frá því áður.

„Ég var að frjósa til andskotans fyrst. Það er auðvitað kalt núna og stundum er 25 til 30 stiga frost en það eru svo miklar sveiflur því það getur verið heitt næsta dag. Þegar ég fór fyrst þá var bara stanslaust 27 til 30 stiga frost,“ segir Ragnar og nefnir að á mynd sem hann tók í febrúar 1993 hafi allt verið frosið. „Svo tók ég mynd í febrúar 2017 og þá var Hjelmer að róa þar sem átti að vera helfrosið og var að skjóta sel á röndinni.“

Greind og grimm skepna

„Þetta er svo tignarleg skepna og falleg,“ segir Ragnar um ísbirnina. Mynd/RAX
„Þetta er svo tignarleg skepna og falleg,“ segir Ragnar um ísbirnina. Mynd/RAX

Veiðimennirnir veiða mikið af sel og náhval og rostung ef hann kemur. „Maður veit ekkert hvað það verður lengi leyft að veiða ísbirni. Veiðimennirnir segja, og það er stundum hollt að spyrja þá sem vita, að ísbjarnastofninn sé stór við Scoresbysund. Það kemur mikið af björnum inn í þorpin, stundum koma þeir annan hvern dag. Þegar ég fór fyrst var ísinn mjög þykkur og þá kom ísbjörninn ekkert inn í þorpin og ég sá engan ísbjörn fyrstu tvö eða þrjú árin,“ segir Ragnar. Í dag sé nánast óhjákvæmilegt að sjá ísbjörn.

„Það er rosalega magnað, þetta er svo tignarleg skepna og falleg,“ svarar Ragnar spurður um þá upplifun að vera í návígi við ísbirni. „Ísbjörninn er ofboðslega greindur og náttúrlega gríðarlega grimmur og hættulegur. Það er auðvitað sorglegt að sjá hann falla, þetta er konungur hafíssins. Veiðimennirnir verða líka sorgmæddir. Þeir fagna ekki en líta þannig á að náttúran gefi þeim líf. Þeir geta ekki farið út í búð eins og við og keypt rollukjöt.“

Ber hlýjar tilfinningar til vina sinna á Grænlandi

Ragnar hefur ekki tekið sjálfur þátt í veiðunum enda er það ekki leyfilegt. „Ég drep ekki einu sinni moskítóflugu. Þær eru reyndar stærstar í heimi á Grænlandi, eins og þyrlur og alveg skelfilegar á sumrin. Það er miklu betra að koma á veturna,“ undirstrikar hann.

Mynd/RAX
Mynd/RAX

Spurður um tengsl sín við það fólk sem hann hefur kynnst á Grænlandi kveðst Ragnar bera til þeirra mjög hlýjar tilfinningar.

„Ég læri mjög mikið af þeim og ber ómælda virðingu fyrir þeirra lífsviðurværi og þeirra lífsháttum. Veiðimennirnir eru alveg yfirburða töffarar í sínum heimkynnum þótt þeir rati kannski ekki upp í flugvél ef þeir ferðast um heiminn,“ segir Ragnar. Reyndar séu ferðalög nokkuð flókin fyrir þetta fólk.

„Ef það þarf að fara til tannlæknis eða læknis þá þarf að fljúga til Reykjavíkur eða Akureyrar og þaðan til Nuuk og aftur til baka og það tekur viku. Það kostar hálfa milljón að draga úr eina tönn,“ segir Ragnar.

Hundunum fækkar ört

Líkt og áður segir er ólíklegt að unga fólkið taki við keflinu í veiðinni. Ragnar segir það að minnsta kosti verða afar fáa.

Mynd/RAX
Mynd/RAX

„Hundunum hefur fækkað og það er líka mælikvarði á veiðimennina. Hundarnir voru yfir þrjátíu þúsund fyrir tólf árum en nú eru þeir tíu þúsund. Það er dýrt að halda úti fjórtán hundum fyrir sleða. Það verður að veiða sel til að gefa þeim að éta,“ segir Ragnar sem kveðst stundum vera gagnrýndur til að gera ekki skil á þeim vandamálum sem þessir hópar glími við, eins og til dæmis ofbeldi gagnvart börnum og konum sem hann hafi ekki sjálfur séð í fyrstu en frétt af síðar.

„Ég tel það ekki vera mitt hlutverk að gera það. Ef einhver vill gera það þá getur hann það en ég vil frekar sýna veiðimennina flotta og mynda þessar hetjur áður en þær hverfa. Allir sem ég þekki eru heilir og flottir og ekkert vesen á þeim,“ segir Ragnar.

Orðin hefur vitundarvakning að sögn Ragnars. Ungir krakkar í Grænlandi hafi tekið sig saman í heilu þorpunum og drekki ekki áfengi. „Þau læra í skólum og af öðru og fá þá betri vinnu en að hanga í skítakulda í tjaldi.“

Sameiningartákn í smíðum

Ragnar hefur ekki beint linsu sinni að Grænlendingum einum. Hann kveðst hafa verið að mynda öll heimskautalöndin átta. Alls staðar séu breytingar. Um þetta sé bók í smíðum.

„Einar Geir Ingvarsson, sem er að hanna bókina og sýningarnar, segir að hún sé dálítið eins og sameiningartákn norðurslóða því það er ekki til slík bók fyrir. Alls staðar þar sem ég kem spyr fólkið um aðra þegar það fréttir hvar ég hef verið. Fólkið er spennt að vita um hvert annað. Þetta fólk finnur til samkenndar hvert með öðru og allir vilja vera vinir,“ segir Ragnar. Auk þess sem hann hafi teið myndir hafi Óskar Páll Sveinsson kvikmyndatökumaður verið að filma á sumum stöðum.

„Við ætlum að gera risabók sem verður eins og ferðalag í gegn um öll löndin. Draumurinn er að gera sýningu um leið sem fer um heiminn,“ segir Ragnar sem kveður mjög dýrt að skrásetja norðurslóðir í myndum.

Ekki af himnum ofan

„Það kostar eins og hús að gera þetta. En það er nauðsynlegt. Mannkynssagan er þarna að gerast fyrir framan nefið á okkur og hún er að skauta fram hjá og engin spáir í það,“ segir Ragnar sem aðspurður kveðst í raun ekki hafa hugmynd um hvernig þeir hafi farið að þessu.

„Fyrst seldi ég myndavélina mína og bílinn minn til að komast og núna gefum við út bækur og seljum og söfnum fyrir þessu og förum og eyðum peningum í að gera þetta. En maður verður að hætta á einhverjum tímapunkti og slaka á. Mér finnst bara svo skrítið að af öllum sem eru að fjalla um þessi norðurslóðamál eru fáir sem að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að skrá söguna í ljósmyndum og frásögnum veiðimanna. Þetta dettur ekkert af himnum ofan,“ segir Ragnar.

Spurður um styrki og annan stuðning nefnir Ragnar að hann eigi góða vini sem hafi tekið þátt í þessum verkefnum með honum. Annað sé það ekki.

Rússar verði líka með

„Maður sækir um eitthvað og það þýðir ekkert. Þú verður að vera í kvikmyndagerð eða að skrifa bók um eitthvað annað. Þetta er það dapurlega finnst mér en ég nenni ekki að vera að væla, ég bara geri þetta því tíminn flýgur og það er sumt sem er horfið eða að hverfa.“

Ragnar segir hins vegar að með stuðningi hefði verið hægt að gera miklu meira.

„Þetta gæti væri tilbúið sem efni fyrir þessar norðurslóðaþjóðir að ræða um. Ég tel að norðurslóðir verði eitt stærsta mál á jörðinni þegar þessi stríð eru búin. Nú þurfa menn að tala saman, Rússar verða að vera með því það er ekkert hægt að skilja þá eftir,“ segir Ragnar.

Þrátt fyrir hindranir í vegi kveðst Ragnar ekki ætla að hætta að taka myndir og hann muni fara áfram um norðurslóðir. „En maður getur ekki fórnað öllu fyrir þetta endalaust.“

Veiðimaður með sleða sinn og hunda. MYND/RAX