Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafði ekki fyrr birt reglugerð um veiðigjald fyrir komandi fiskveiðiár en Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu frá sér tilkynningu með harðri gagnrýni á álagninguna, sem ríflega tvöfaldast á milli ára.

„Þetta er mikil hækkun sem mun koma hart niður á fjölmörgum útgerðum og þær eru misjafnlega í stakk búnar til að standa undir gjaldinu,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Samtökin gagnrýna sérstaklega að reikniregla veiðigjaldsins fyrir fiskveiðiárið 2017-18 sé byggð á gögnum um hagnað fyrirtækjanna árið 2015.

„Það gerir það að verkum að gjaldið endurspeglar ekki rekstrarskilyrði greinarinnar á hverjum tíma,“ segir í tilkynningu SFS. „Því getur hagnaður verið að minnka á sama tíma og veiðigjald er að hækka.“

Þannig hátti einmitt til núna: „Rekstrarskilyrði í sjávarútvegi hafa versnað og ekki er útilokað að álagning veiðigjalds fyrir næsta fiskveiðiár muni reynast einhverjum smærri og meðalstórum útgerðum ofviða. Slíkt gæti aukið samþjöppun í sjávarútvegi.“

Þá hafa Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja einsýnt að stór fyrirtæki með samþættan rekstur útgerðar og vinnslu séu „einu aðilarnir í íslenskri útgerð, sem geta tekið á sig þá hækkun veiðigjalda sem nú hefur verið ákveðin.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegsráðherra svaraði því til að úthlutunin eigi ekki að koma neinum á óvart: „Reiknireglan er alveg skýr,“ sagði hún í viðtali við RÚV. „Henni verður ekki breytt núna fyrir þetta tímabil.“

Í tilkynningunni frá SFS er áætlað að veiðigjöldin fyrir komandi fiskveiðiár verði 10,5 til 11 milljarðar króna. Veiðigjöld voru hæst fyrsta árið sem þau voru lögð á, eða 2012-13 þegar þau námu 12,8 milljörðum. Síðan hafa þau lækkað ár frá ári og voru 2015-16 samtals 6,9 milljarðar króna.

Samkvæmt tölum frá fiskistofu Íslands greiddu 20 stærstu útgerðarfyrirtæki landsins 74 prósent af öllum veiðigjöldum fyrir fiskveiðiárið 2015-16, alls rúmlega 5.130 milljónir. Stærstu greiðendurnir eru stórfyrirtækin HB Grandi og Samherji en næst koma Síldarvinnslan og Skinney-Þinganes.

[email protected]