„Mér sýnist nánast fyrirsjáanlegt að uppsjávarflotinn verði rekinn með tapi fyrir vexti og afskriftir og hvað þá? Á samt að leggja 33% veiðigjald á hagnað sem ekki er til?“

Svo spurði Guðmundur Örn Gunnarsson, formaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum, í ræðu sinni á aðalfundi fyrirtækisins í síðustu viku.

Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir í stuttu spjalli við Fiskifréttir að reglur um veiðigjöld séu „vitleysa frá upphafi til enda. Hugmyndin um veiðigjöld byggir á hugmynd um auðlindarentu. Auðlindarenta er skilgreind sem ávöxtun fjár sem er umfram ,,eðlilega ávöxtun fjár“ og á þarf að taka tillit til alls kostnaðar þar með talins fjármagnskostnaðar, bæði vaxta og eðlilegrar ávöxtunar eigin fjár, sem og eðlilegrar endurnýjunar framleiðslutækja. Það er ekki gert enda kæmi þá í ljós að í greininni er engin auðlindarenta og því engin forsenda veiðigjalda sem tekjustofns ríkisins. Menn eru alltaf að hræra í þeim og átta sig svo á að þau virka ekki rétt.“

Hann segir þetta geta gerst í þessu kerfi, að veiðigjöld séu lögð á þótt tap sé á rekstrinum, vegna þess að í reynd er það framlegðin sem er skattlögð, ekki hagnaðurinn.

„Ég er eiginlega viss um það að mikill hluti uppsjávarflotans verður með nánast enga framlegð þegar búið er að leggja á þá veiðigjöld. Þá fer þetta í mínustölu. Svo dregurðu frá þeim afskriftir og svo leggurðu á þá fjármagnskostnað.“

Ágætisár að baki
Sigurgeir segir annars að síðasta ár hafi verið ágætisár fyrir Vinnslustöðina.

„Hagnaður félagsins er 6,7 milljónir evra sem jafngildir um 900 milljónum króna sem samsvarar 3% ávöxtun á markaðsvirði útistandandi hlutafjár ef miðað er við síðustu viðskipti með hlutabréf í félaginu. Í því felst varla ,,umframávöxtun“.

Um þessar mundir bitna bæði loðnubrestur og humarbrestur harkalega á fyrirtækinu.

Verkefnið núna er að „reyna að skoða allar leiðir hvernig við getum aukið tekjur. Hvernig við getum hagrætt. Hvernig við getum gert reksturinn þannig að við séum ekki í taprekstri,“ segir Sigurgeir.

Hærri veiðigjöld og lægri arður
Á aðalfundi félagsins kom fram að hagnaður fyrirtækjasamstæðu Vinnslustöðvarinnar á árinu 2018, liðlega 900 milljónir króna, hafi minnkað um 23 prósent frá fyrra ári.

Framlegð VSV-samstæðunnar, sem stundum er nefnd EBITDA, jókst hins vegar um 23,5% og nam 19,3 milljónum evra en var 15,6 milljónir evra árið 2017.

Á síðasta ári greiddi samstæðan um 400 milljónir króna í veiðigjöld og jukust þau um 47% frá fyrra ári.

Þá var samþykkt að arðgreiðslur til hluthafa fyrir síðasta ár verði fjórar milljónir evra, sem jafngildir um 550 milljónum króna. Undanfarin fimm ár hafa argreiðslurnar verið tvisvar sinnum hærri, eða átta milljónir evra árlega.

Bæði skin og skúrir
„Það eru bæði skin og skúrir í kringum Vinnslustöðina um þessar mundir og um sjávarútveginn yfirleitt,“ sagði stjórnarformaðurinn, Guðmundur Örn, í ræðu sinni á aðalfundinum. „Þannig er það gjarnan og verður með þessa atvinnugrein.“

Hann segir aðstæður hafa verið að ýmsu leyti erfiðar á árinu 2018 en félagið sé samt að skila góðu uppgjöri og afkomu.

„Þar er augljóst að miklar fjárfestingar og framkvæmdir til lands og sjávar undanfarin ár skila strax mjög merkjanlegum árangri.“

Asía í stað Rússlands
Guðmundur segir markaðssvæði Vinnslustöðvarinnar hafa breyst mikið á síðustu árum. Á síðasta ári seldi fyrirtækið 46 prósent frystra uppsjávarafurða sinna á mörkuðum í Asíu en fyrir sjö árum var þetta hlutfall 12 prósent.

„Með öðrum orðum fer nær fjórfalt meira af afurðum okkar til Asíu en fyrir sjö árum.“

Áður var aðalmarkaður fyrirtækisins í Rússlandi og öðrum ríkjum Austur-Evrópu en nú munar mest um Asíu.

„Nærtækasta skýringin er sú að Rússlandsmarkaður lokaðist af pólitískum ástæðum,“ sagði hann, en fleira komi þó til.

Vinnslustöðin hafi lagað sig sérstaklega að kröfum Asíumarkaðar með fjárfestginum og vinnubrögðum og einnig  gerst meðeigandi í Okada Susian, rótgrónu japönsku fyrirtæki sem er með nær helmings hlutdeild í markaði fyrir loðnuafurðir þar í landi.

Mikilvægi rannsókna
„Stemningin í Eyjum er önnur og lágstemmdari núna en hún hætti að vera,“ segir Guðmundur engu að síður, og vísar þá til loðnubrests og humarbrests sem nú herjar á bæði fyrirtækið og byggðarlagið. Loðnan skilur eftir sig stórt skarð, en Guðmundur segist samt ekki hafa áhyggjur af því að loðnustofninn sé hruninn.

„Sjómenn segja til dæmis fréttir núna af umtalsverðri loðnu víða um sjó, í kringum Eyjar og vestur fyrir Snæfellsnes.“ Það sé hins vegar sýnd veiði en ekki gefin, en boði væntanlega betri tíð síðar.

„Hvað loðnuna varðar skiptir gríðarlegu máli að rannsaka hana og meta magn hennar í sjónum. Þar getur hæglega ráðist hvort þjóðarbúið fái 10 til 20 milljarða króna tekjur eða ekki. Helmingurinn rynni beint eða óbeint til ríkisins.“

Hann sagði óskiljanlegt hve sinnulítil stjórnvöld landsins hafa verið um árabil gagnvart grunnrannsóknum í hafinu. „Tiltölulega ódýrar rannsóknir geta ráðið úrslitum um miklar tekjur.“

Þá segir hann loðnubrestinn vissulega loka dyrum, en Vinnslustöðvarfólk sé að kanna „hvaða dyr megi hugsanlega opna í staðinn“.

Auk þess segir hann humarbrestinn, sem kemur yfir á sama tíma, sömuleiðis verulegt högg.

„Sameiginlegt er með humri og loðnu að óþægilega lítið er vitað um ástæður þess hvernig komið er.“