Hafin er vinna við þróun á nýju einsleitu veiðigjaldakerfi í Grænlandi í samvinnu við hagsmunaðila. Unnið er út frá þeirri forsendu að greitt verði veiðigjald fyrir veiðar á öllum fisktegundum.

Þetta kemur fram í grein í sjávarútvegssýningarblaði Fiskifrétta eftir Hilmar Ögmundsson ráðgjafa grænlenska fjármálaráðuneytisins um fiskveiðar og þróun auðlindagjalda, en Hilmar er í forsvari fyrir þessa undirbúningsvinnu.

Veiðigjald hefur verið lagt á rækju um margra ára skeið og er áætlað að það skili 2,7 milljörðum króna á þessu ári. Veiðigjald á grálúðu var innheimt í fyrsta skipti í fyrra og á að gefa 420 milljónir ISK í ár. Veiðigjald á makríl er 20 kr/kg ISK eins og áður hefur komið fram og mun skila um 1,5 milljörðum ISK á yfirstandandi ári.

Að auki greiðir allur úthafs- og strandveiðiflotinn á rækju fast gjald tæpar 13 þúsund ISK fyrir hvert tonn af veiddum afla sem ætlað er að standa undir kostnaði við stjórn og eftirlit fiskveiða.

Sjá nánar um tilhögun veiðigjalda og annan fróðleik um grænlenskan sjávarútveg í sjávarútvegssýningarblaði Fiskifrétta.