Sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um veiðigjald.  Tilefni álagningar veiðigjalds er „..að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi (svo) auðlindarinnar…“ svo vitnað sé í greinargerð frumvarpsins.  Tilgangur breytinganna nú er að sníða ákveðna ágalla sem eru á núverandi fyrirkomulagi.

Grunnrenta

Álagningargrunnur veiðigjaldsins, bæði í núgildandi lögum og samkvæmt frumvarpinu, er grunnrenta í fiskveiðum.  Gjaldinu svipar því til grunnrentuskatta sem t.d. norðmenn leggja á notkun vatnsafls til raforkuframleiðslu og skattheimtu þeirra af olíuvinnslu í Norðursjónum.  Grunnrenta er óbeint skilgreind í 5. gr. frumvarpsins sem aflaverðmæti að frádregnum breytilegum úthaldskostnaði og föstum kostnaði.  Þessi skilgreining er hliðstæð skilgreiningu norsku skattalaganna á grunnrentu í raforkuframleiðslu með vatnsafli. Mörg norsk raforkuver selja alla orku til skylds aðila. Því er verðmæti orkusölunnar áætlað með hliðsjón af verðmæti orku í sölu milli óskyldra aðila. Þá er fasti kostnaðurinn (fjármunakostnaðurinn) miðaður við afskriftir fastafjármuna og (áætluðum) vöxtum af fjármunaeigninni . Þessu er öðruvísi háttað skv. íslenska frumvarpinu eins og vikið verður að síðar.

Tvíþættur galli

Frumvarpinu er ætlað að sníða tvíþættan galla af núverandi fyrirkomulagi. Í fyrsta lagi sjóðstreymisvanda vegna langs tíma sem líður frá því að forsendubreytingar (gengisbreytingar, verðbreytingar á afurðum) verða uns þær breytingar hafa áhrif á greitt veiðigjald.  Nú er það svo að höfuðverkefni þeirra sem reka fyrirtæki er að stjórna sjóðstreymi þannig að ekki komi til sjóðsþurrðar.  Vandinn tengdur greiðslu veiðigjalds er ekki með nokkrum hætti frábrugðinn öðrum sjóðstreymisvandamálum sem koma upp vegna veiðarfærakaupa eða óvæntra viðgerða.  Þetta er því léttvægt sjónarmið.  Í öðru lagi er sú aðferð sem notuð er í gildandi lögum til að meta fjármunakostnaðinn vægast sagt gölluð vegna óeðlilegs vægis gengisbreytinga.  Aðferðafræði frumvarpsins er að notast við bókhaldslegar afskriftir fastafjármuna og svipar þannig til aðferðafræði Norðmanna.  Samkvæmt frumvarpinu á svo að slumpa vaxtakostnaðinn með því að áætla hann sömu upphæð og afskriftirnar!  Þetta er vægast sagt undarleg aðferð.  Hagstofan (og Þjóðhagsstofnun þar áður) hefur reiknað fjármunakostnað í útgerð með svokallaðri árskostnaðaraðferð í áratugi.  Sú aðferð stenst mun betur fræðilega en aðferðafræði frumvarpsins.

Aðferðafræði

Eins og nefnt var í upphafi víkur aðferðafræði frumvarpsins frá aðferðafræði norskra skattyfirvalda þegar kemur að því að áætla verðmæti framleiðslunnar. Meðan Norðmenn styðjast við verð í viðskiptum óskildra aðila er í íslenska frumvarpinu stuðst við upplýsingar úr bókhaldi útgerðarfyrirtækjanna. Verðlagning afla hefur lengi verið deilumál sjómanna og útgerðarmanna. Verði frumvarpið að lögum með óbreyttum ákvæðum hvað þetta varðar munu útgerðarmenn fá viðbótarhvata til að verðleggja fisk í innbyrðis viðskiptum á sem lægstu verði. Slík aðgerð mundi bæði lækka launakostnað og framtíðarveiðigjald!

Tilraunir Færeyinga

Færeyingar hafa gert tilraunir með gjaldtöku fyrir nýtingu veiðiheimilda.  Ekki skal fjölyrt um þá tilraun hér.  Aðeins nefnt að uppboðsaðferð þeirra leysir meintan sjóðstreymisvanda þar sem breyttar aðstæður hafa strax áhrif á uppboðsverð.  Hitt vekur athygli að Færeyingar innheimta í raun mun hærri veiðigjöld af veiðum í Barentshafinu og í Síldarsmugunni en á veiðslóð nær Færeyjum.  Samkvæmt fyrstu grein núverandi frumvarps er viðhaldið ákvæði gildandi laga um að íslenskar útgerðir skuli ekki greiða fyrir aðgang að þessum veiðislóðum.  Enginn rökstuðningur fylgir.  Oft eru veiðiheimildir á fjarlægum miðum sem skiptiviðskipti þar sem erlendir aðilar fá einhvers konar ívilnun til athafna innan íslensku efnahagslögsögunnar í skiptum fyrir veiðiheimildirnar. Það eru því full rök fyrir því að meðhöndla þessar veiðiheimildir með sama hætti og veiðiheimildir innan efnahagslögsögunnar.

Tvö ódýrari en eitt

Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins er almenn upphæð gjaldsins 33% af gjaldstofni. Gefinn er afsláttur af fyrstu 9 milljónum gjaldsins sem gagnast smærri aðilum fyrst og fremst. Þannig kann að vera ódýrara að reka tvö smá fyrirtæki en eitt stærra. Ákvæðið kann að draga úr skilvirkni í greininni og kann að hafa áhrif á framtíðarþróun hennar.

Gjaldtakan er sögð svipuð og væri samkvæmt ákvæðum gildandi laga. Til samanburðar má nefna að norsk raforkufyrirtæki greiða 36-37% í grunnrentuskatt auk þess sem þau greiða talsvert hærri almennan tekjuskatt en íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Grunnrentuskattur olíufyrirtækjanna sem vinna olíu í norska hluta Norðursjávarins er 55%. Samtals greiða þau langleiðina í 80% af hagnaði sínum til norska ríkisins. Norska fjármálaráðuneytið bendir á að grunnrentuskattar séu afar hagkvæmir skattar. Það eru því góð rök fyrir því að stilla prósentunni í íslensku lögunum hærra en gert er í fyrirliggjandi frumvarpi. Vilji menn það ekki væri einnig til athugunar að fara uppboðsleið Færeyinga.

Upphaflegur tilgangur

Kvótakerfinu var upphaflega komið á til að auka þjóðhagslega arðsemi veiðanna, m.a. með því að þvinga óhagkvæmar útgerðir til að hætta rekstri. Skynsamleg framkvæmd veiðigjaldsálagningar styður þetta markmið og getur jafnvel orðið til að bæta skilvirkni opinberrar tekjuöflunar. Aðgerðir sem lúta að því að auðvelda óhagkvæmum útgerðum róðurinn t.d. með ótímabundnum afslætti af veiðigjaldi vinna gegn hinum upphaflega tilgangi kvótakerfisins.

Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands