Í nýju fiskveiðilagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að veiðigjaldið verði tvöfaldað frá því sem nú er. Skulu 50% af því renna í ríkissjóð, 30% til sjávarbyggða og 20% til þróunar- og markaðsmála í sjávarútvegi.
Undantekning er gerð fyrir næsta fiskveiðiár en þá er gert ráð fyrir 70% hækkun gjaldsins og skal fimmtungur af því renna til sjávarbyggða en hitt í ríkissjóð.
Hefði þessi síðarnefnda tillaga verið í gildi á yfirstandandi fiskveiðiári hefði gjaldið orðið 4,8 milljarðar króna í stað 2,8 milljarða eins og nú er áætlað. Með tillögunni er lagt til að viðmið við útreikning á veiðigjaldi verði á næsta fiskveiðiári hækkað úr 9,5% af reiknaðri EBITU í 16,2%.