Landssambandi smábátaeigenda barst tilkynning frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu á mánudag þess efnis að tekið hefði verið undir sjónarmið LS varðandi dagafjölda á yfirstandandi grásleppuvertíð og því ljóst að gefin verður út reglugerð þess efnis á næstu dögum.
Frá þessu segir á vef sambandsins.
Einnig var upplýst um að 12. grein reglugerðarinnar verði felld á brott, en LS hafði mótmælt breytingunni og lýst yfir að hún gæti haft þær afleiðingar að það myndaðist hvati til brottkasts. Greinin fól það í sér að Fiskistofa gat svipt báta veiðileyfi, landi þeir meira magni af bolfisk í þorskígildum en grásleppu. Engu skipti hvort viðkomandi bátur hefði aflaheimildir fyrir aflanum.
Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að grásleppuafli fari ekki umfram 4.805 tonn, sem er um 14% minnkun milli ára.
Grásleppunefnd LS hafði lagt til við ráðuneytið að veiðidagarnir yrðu 44, sem er sami dagafjöldi og var á síðustu vertíð. Til grundvallar niðurstöðu nefndarinnar voru aflatölur og þróun síðustu vertíða skoðaðar í samhengi við upphaf yfirstandandi vertíðar og ráðgjöf Hafró með það að markmiði að veiðin verði sem næst ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.