Veiðar á Eldeyjarrækju hafa verið heimilaðar á ný eftir um 16 ára hlé. Sjávarútvegsráðherrra gaf út 250 tonna heildarkvóta fyrstu vikuna í júní, þar af fóru um 7 tonn í pottana en 243 tonnum var úthlutað samkvæmt aflahlutdeild, að því er fram kemur í nýjustu Fiskifréttum.
Þrettán leyfi eru fyrir veiðum á Eldeyjarrækju en þeim var úthlutað á sjö báta. Hvert leyfi er um 18,7 tonn eftir skerðingu. Kvótinn miðast við almanaksárið 2013. Rækja var síðast veidd við Eldey árið 1997 en þá hrundi stofninn.
Nesfiskur í Garði er eitt þeirra útgerðarfélaga sem á báta sem hafa heimild til að veiða rækju við Eldey. Félagið er með fjögur leyfi, samtals um 75 tonn, sem skiptast á þrjá báta. Ingibergur Þorgeirsson útgerðarstjóri sagðist gera ráð fyrir því að þeir myndu hefja rækjuveiðar í ágúst. Þeir hafi farið í prufutúr og rækjan hefði reynst stór og falleg, um 120 stykki í kílóinu.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.