Finnur Sigurbjörnsson, skipstjóri á Múlabergi SI, togara Ramma á Siglufirði, kveðst ekki muna jafngóða byrjun á úthafsrækjuveiðunum.

„Það liggur yfirleitt frekar vel á mér en það dró dálítið fyrir sólu í síðustu veiðiferð þegar þörungablóminn breiddist út í sjónum og við það hverfur bara rækjan. Þetta gerist alltaf í maí. Vorið hefur verið kalt og þess vegna byrjar þetta seinna en oft áður. Svo sekkur blóminn í sjóinn á um hálfum mánuði og þá byrjar veiðin aftur,“ segir Finnur.

Hann segir að veiðin hafi verið fín fram að þessu en Múlabergið hóf rækjuveiðar í byrjun mars. Fyrsti túrinn í vor hafi verið eftirminnilega góður. Það hafi verið mikil grálúða og þorskur með og þeir hafi neyðst til að hætta vegna þess hve mikill þorskur var í meðafla. Þetta var við Hraunið, sem kallað er, um 20 mílur norður af Kolbeinsey.

5 tonn í einu holi

Veiðin hafi verið það góð að Nesfiskur hafi sent Berglín og Sóley Sigurjóns fyrr en áður á miðin og Vestfjarðarbátarnir hafi líka byrjað fyrr en venjulega. Veiðin hefur verið úti í grunnlínu fyrir norðan land og í útköntum. Múlabergið hefur verið að fá upp í 5 tonn í einu holi eftir sex tíma tog.

„Svo köstuðum við núna í byrjun síðasta túrs í Húnaflóa og drógum í 42 mílur úr Húnaflóabotni og langt norður fyrir Nætur, sem kallað er, og það var engin veiði. 800 kíló var allt og sumt. Þetta gerir þörungurinn og það hverfur bara allt líf í sjónum. Rækjan fer upp í sjó og leitar birtu. Unnur Skúladóttir, sem var helsti rækjusérfræðingur Hafró, sagði mér eitt sinn að rækjan leitaði upp og hrygndi í þörungablómann. Þetta gæti alveg staðist.“

Finnur byrjaði í eigin útgerð á rækju árið 1979 á Hafsúlunni. Hann hefur því aðeins snert á þessari grein sjómennskunnar. Hann hefur verið við rækjuveiðar í á fimmta áratug, þar af á Múlaberginu frá 2005 og þar áður á Sólberginu og öðrum bátum.

„Ég veit það altént eftir öll þessi ár að það dettur niður veiðin í maí. Og maður ætlar sér alltaf að vera í fríi en svo gleymist að gera ráðstafanir,“ segir Finnur og hlær.

Hann segir að miðað við byrjunina núna meti hann ástand rækjustofnsins mjög gott. Veiðin glæðist svo yfirleitt aftur eftir sjómannadag þegar dregur úr þörungablómanum. En miðað við byrjunina bendi flest til þess að sumarið verði gott.

Kergja í sjómönnum

Finnur segir það fráleitt fyrirkomulag að rækjusjómenn þurfi einir manna að semja sérstaklega við hverja útgerð fyrir sig um hlutinn sinn. Það sé árvisst að fá menn frá útgerðinni niður í borðsal til að ræða kaup og kjör í upphafi veiðanna og þar stangist sjónarmiðin iðulega á. Áhöfn Múlabergs samþykkti ekki samning sem henni var boðið í vor og fór málið þá fyrir úrskurðarnefnd Verðlagsstofu skiptaverðs og verð til sjómanna snarskánaði. Sá samningur gilti þó aðeins í mánuð og þar sem sjómenn gengu ekki að fyrra tilboði útgerðarinnar ákvað hún að selja allan aflann á markaði í fyrsta sinn í sögunni. Útgerðin keypti svo sjálf eigin afla á uppboðinu og var ein um að bjóða í hann.

Finnur segir mikla kergju í sjómönnum út af rækjuverðinu. Ekki sé það til að bæta skap manna að útgerð Múlabergs gerði samninga við Vestra BA og Frosta ÞH um hærra verð fyrir rækju en útgerðin greiðir eigin áhöfn en þetta sé einungis sé skammtímasamningur við aðkomuskipin. Finnur segir að útgerðin beri því við að erfiðlega gangi að selja rækju á erlendum mörkuðum vegna Covid 19 og lítið fáist fyrir hana. Það stemmir ekki alveg við frétt í Fiskifréttum fyrr í mánuðinum þar sem haft var eftir framkvæmdastjóra rækjuverksmiðjunnar Hólmadrangs um jafna og stöðuga aukningu í eftirspurn eftir rækju á Bretlandsmarkaði. Fyrirtækið hefur af þeim sökum auglýst eftir starfsmönnum til að anna eftirspurninni.