Það er til marks um hlýnun sjávar að makríll, síld og jafnvel túnfiskur er farinn að sjást í hafinu milli Austur-Grænlands og Íslands.
Sumarið 2012 var fiskibátur við rannsóknaveiðar á vegum Náttúrustofnunar Grænlands á Grænlandssundi og tilgangurinn var að rannsaka stöðu makrílstofnsins. Það sem kom á óvart þegar netin voru dregin að þar voru þrír bláuggatúnfiskar en slíkt hafði ekki gerst í yfir 100 ár, eða þegar túnfiskur synti upp í fjöru við Qaquortoq í Suðvestur-Grænlandi árið 1900.
Túnfiskur lifir ekki lengi í sjó þar sem yfirborðshitinn er undir 11 gráðum. Túnfiskurinn þarf að sjálfsögðu líka fæðu og nóg er af henni þar sem bæði makríll og norsk-íslenska síldin er farin að ganga inn á þetta hafsvæði.