Uppgjör ráðuneytis veiðimála í Alaskaríki í Bandaríkjunum sýnir að laxveiðitímabilið 2017 skilaði ævintýralega góðri niðurstöðu. Í heildina veiddust tæplega 225 milljónir villtra laxa – tvöhundruð tuttugu og fimm milljónir - af fimm tegundum og er söluvirðið metið um 679 milljónir bandaríkjadala eða um 70 milljarðar íslenskra króna. Samanborið við veiðina árið á undan er um 66% hækkun á söluverðmæti en þá skilaði þessi mikilvægi veiðiskapur íbúum ríkisins 407 milljónum bandaríkjadala, eða 43 milljarðar íslenskra króna. Kannski er rökrétt að tala um veiði í tonnum. Heildarveiði allra tegundanna er rúmlega 450.000 tonn, en til samanburðar var makrílafli íslenskra skipa á síðasta ári 172.000 tonn.
Áður en lengra er haldið er gott að hafa það hugfast að þá veiðast að meðaltali um 50.000 villtir laxar á Íslandi árlega á stöng. Miðað við algengt veiðihlutfall, sem er um 60%, ganga þá um 83.000 laxar í íslenskar ár á hverju sumri. Hrygningarstofninn er þá um 33 til 50.000 fiskar, samkvæmt upplýsingum Landssambands veiðifélaga.
Rauðlaxinn verðmætastur
Langverðmætastur er rauðlax eða sockeye salmon, en fjórðungur heildarveiðinnar er af þessari tegund en helmingur teknanna. Bleiklax eða pink salmon, einnig kallaður hnúðlax, er mun verðminni en vel rúmlega helmingur veiðinnar, en af þeirri tegund veiddust tæplega 142 milljónir laxa. Hinar tegundirnar sem eru veiddar eru af tegundunum chum, coho og chinook.
Laxveiðar Alaska byggja á sterkum stofnum Kyrrahafslaxa, en svo hefur ekki alltaf verið. Stjórnvöld gengust fyrir ströngum aðgerðum til að bjarga stofnunum fyrir ekki svo löngu síðan, og er veiðunum nú stjórnað undir ströngu eftirliti byggt á rannsóknum. Alaskaríki hefur algjöra sérstöðu í Bandaríkjunum þegar kemur að laxveiðum í atvinnuskyni. Þaðan kemur 80% af öllum laxi sem er veiddur villtur í Norður-Ameríku, en Kanada veiðir 15% af heildinni.