„Þetta var alveg rosalegt,“ segir Sigurður Guðjón Duret sem í fyrradag hélt með fjögurra ára syni sínum til veiða í Læknum í Hafnarfirði. Þar fengu þeir vænan sjóbirting.

„Ég var að leyfa stráknum að prófa aðeins að kasta flugunni og svo kemur þessi fiskur bara undan bakkanum og fer beint í fluguna,“ segir Sigurður sem kveðst síst hafa átt von á slíkum feng á þessum stað. Undir hafi verið míkrófluga og aumasti taumurinn sem hann fann í bílnum hjá sér.

Veiðistaðurinn var í Læknum þar sem Ísbúð Vesturbæjar og Álfagull eru við Strandgötuna. „Það er alveg talsverður spölur sem fiskurinn þarf að ganga til að komast á þennan stað. Þetta er ekkert grín. Hann er að fara frá sjónum og undir Fjörðinn og allt það. Og er svo að troða sér á milli í grindinni. Þetta var alveg magnað,“ lýsir Sigurður aðstæðum.

Sjálfur er Sigurður úr Hafnarfirði og ekki ókunnugur veiðum í Læknum. „Ég veiddi þarna þegar ég var yngri en það voru bara einhverjir litlir puttalingar og síli. Það var þess vegna sem ég fór með guttann þangað, bara í von um að fá einhver síli,“ segir hann.

Sjóbirtingurinn var vænn eins og sést en Sigurður var ekki með málband á sér og var fiskurinn því ekki mældur áður en hann fékk frelsið að nýju.

„Ég er með fullan frysti af laxi og birtingi og það er ekki pláss fyrir meira. Annars hefði ég tekið hann,“ segir Sigurður sem aldrei hefur séð neitt þessu líkt í Læknum. „Mér hefur verið sagt að í kring um 1920, áður en sett var upp stífla hafi gengið sjóbirtingur í þennan læk.“

Sonur Sigurðar heitir Alexander Myrkvi og er aðeins fjögurra eins og áður segir. Hann er mikill veiðiáhugamaður eins og pabbi sinni. „Hann byrjaði tveggja og hálfs og er með delluna alveg hreint,“ segir Sigurður.

Fleiri myndir og myndband má sjá í Facebookhópnum Veiðidellan er frábær.